Sjálfstæðismenn missa formannsstólinn eftir 32 ár

Aldís Hafsteinsdóttir (t.v.), bæjarstjóri Hveragerðis, lætur af embætti formanns Sambandsins, …
Aldís Hafsteinsdóttir (t.v.), bæjarstjóri Hveragerðis, lætur af embætti formanns Sambandsins, en Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, mun taka við embættinu. Samsett mynd

Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi Samfylkingarinnar, verður næsti formaður stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga. Þetta er í fyrsta skipti í þrjátíu ár sem stjórnmálamaður á vegum Sjálfstæðisflokksins er ekki formaður Sambandsins, en fyrir þann tíma voru formennirnir fengnir inn sem embættismenn frekar en stjórnmálamenn.

Árið 1990 var Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson kjörinn formaður, en hann var borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins og varð síðar borgarstjóri í Reykjavík. Vilhjálmur gegndi embættinu í 16 ár, en árið 2006 var Halldór Halldórsson kjörinn formaður Sambandsins. Á þeim tíma var Halldór bæjarstjóri á Ísafirði fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, en síðar bauð hann sig fram í Reykjavík og var borgarfulltrúi fyrir sama flokk.

Aldís Hafsteinsdóttir var svo kjörin formaður árið 2018, en hún var á þeim tíma bæjarstjóri í Hveragerði og oddviti Sjálfstæðisflokksins þar í bæ.

Heiða Björg settist upphaflega í borgarstjórn í Reykjavík árið 2015 fyrir Samfylkinguna. Hún hefur í tveimur síðustu kosningum verið í öðru sæti á lista flokksins í borginni á eftir Degi B. Eggertssyni borgarstjóra. Þá hefur hún verið varaformaður flokksins síðan 2017. Heiða hefur einnig gegnt embætti varaformanns Sambands íslenskra sveitarfélaga síðasta kjörtímabil, eða frá árinu 2018.

Úrslit formannskjörsins voru birt í dag, en kosningu lauk á hádegi. Á kjör­skrá voru 152 landsþings­full­trú­ar og var kosn­ingaþátt­taka 98,03%. Heiða Björg hlaut 76 at­kvæði eða 51,01%, en Rósa Guðbjarts­dótt­ir, bæjarstjóri Sjálfstæðisflokksins í Hafnarfirði, hlaut 73 at­kvæði eða 48,99%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert