Vefur Sjúkratrygginga færður yfir á Ísland.is

Á nýja vefnum geta notendur nálgast allar upplýsingar um réttindi, …
Á nýja vefnum geta notendur nálgast allar upplýsingar um réttindi, endurgreiðslur og fleira. mbl.is/Sigurður Bogi

Sjúkratryggingar Íslands hafa nú flutt vefsíðu sína yfir á Ísland.is og telur stofnunin að með þessu batni þjónusta við almenning til muna.

Á nýja vefnum geta notendur nálgast allar upplýsingar um réttindi, endurgreiðslur og fleira, að því er fram kemur í tilkynningu frá Sjúkratryggingum.

Sjúkratryggingar hafi unnið markvisst að því að bæta þjónustu við viðskiptavini síðustu misseri. Hefur allt efni á vefnum verið endurskoðað og uppfært með aðgengismál að leiðarljósi.

„Sjúkratryggingar hófu þessa vinnu fyrir aðeins rúmu ári síðan, í samstarfi við Stafrænt Ísland. Megináherslan var á bætta þjónustu og aðgengilegt efni um þá málaflokka sem Sjúkratryggingar sinna. Þeir sem fara inn á Ísland.is sjá að notendaviðmótið hefur verið stórbætt og framsetning einfölduð,“ er haft eftir Maríu Heimisdóttur, forstjóra Sjúkratrygginga.

Flestar heimsóknir allra síðna

Vefurinn sé með flestar heimsóknir allra síðna á Ísland.is frá 1. júlí.

Andri Heiðar Kristinsson, framkvæmdastjóri Stafræns Íslands, segir samstarfið hafa gengið vel og aðdáunarvert að sjá þann metnað sem starfsfólk Sjúkratrygginga hafi sýnt í að bæta þjónustuna.

Meðal annarra stofnana sem undirbúa nú að færa vefi sína yfir á Ísland.is eru Útlendingastofnun, Fiskistofa, embætti landlæknis og Heilbrigðisstofnun Norðurlands. Þá eru sýslumannsembættin einnig komin yfir á Ísland.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka