Tilkynnt var um reiðhjólaslys í hverfi 200 í Kópavogi um hálfsexleytið í gær. Maður hafði fallið af hjóli. Hann var blóðugur í andliti, með skrámur á höndum, skurð á höfði og líklega nefbrotinn.
Maðurinn talaði ekki íslensku og var áfengislykt af honum. Sjúkrabifreið var send á vettvang en maðurinn vildi enga aðstoð og gekk í burtu.
Um sjöleytið í gærkvöldi var maður í annarlegu ástandi handtekinn við Smáratorg í Kópavogi. Hann var búinn að áreita fólk og er einnig grunaður um líkamsárás. Maðurinn var vistaður í fangageymslu lögreglu sökum ástands.
Bifreið var stöðvuð á Reykjanesbraut í Hafnarfirði um níuleytið í gærkvöldi. Ökumaðurinn er grunaður um að hafa stolið bílnum og ekið henni undir áhrifum fíkniefna, ítrekaðan akstur sviptur ökuréttindum og vörslu fíkniefna.
Afskipti voru höfð af ökumanni bifreiðar í Grafarvogi um hálfáttaleytið í gærkvöldi. Ökumaðurinn er grunaður um akstur utan vegar, auk þess sem bifreið hans var búin tveimur nagladekkjum.
Tilkynnt var um innbrot í sjálfsala við bensínsölu í Hafnarfirði. Búið var að valda skemmdum á sjálfsalanum en ekki tókst að komast í seðlageymslu.
Maður í annarlegu ástandi var handtekinn í miðbæ Reykjavíkur á tólfta tímanum í gærkvöldi. Ítrekað var búið að tilkynna um manninn þar sem hann var að valda ónæði. Hann var vistaður í fangageymslu sökum ástands.
Bifreið var stöðvuð klukkan ellefu í gærkvöldi í hverfi 201 í Garðabæ eftir að hafa ekið yfir gatnamót gegn rauðu ljósi. Ökumaðurinn neitaði sök og var skýrsla rituð um málið.