Borgarráð hefur samþykkt að endurskoða uppbyggingaráætlun húsnæðis fyrir fatlað fólk sem gerir ráð fyrir hraðari uppbyggingu og styttingu biðlista.
Samkvæmt áætluninni verður Félagsbústöðum falið að byggja 20 nýja íbúðakjarna með 120 íbúðum, auk þess að útvega 48 íbúðir þar sem einstaklingar fá þjónustu færanlegs teymis. Áætlunin gildir til ársins 2028 en verður endurskoðuð árlega, að fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Auk íbúðanna er gert ráð fyrir starfsmannaaðstöðu í hverjum íbúðakjarna og tveimur starfsstöðum fyrir þau færanlegu teymi sem veita einstaklingunum þjónustu. Heildarkostnaður til ársins 2028 er metinn á 3.688 m.kr. á verðlagi ársins 2022.
Þann 1. ágúst 2022 biðu 136 einstaklingar með fötlun eftir að fá húsnæði úthlutað. Af þeim eiga 22 lögheimili utan Reykjavíkur.
Haft er eftir Degi B. Eggertssyni borgarstjóra að það hafi átt sér stað fordæmalaus uppbygging á íbúðum fyrir fatlað fólk. Þjónusta hafi aukist og ánægja með hana sömuleiðis.
„Velferðarsvið á hrós skilið fyrir að ganga skipulega til verks í þessari stórhuga uppbyggingu en á dögunum var ákveðið að fara enn hraðar í málið til þess að svara þeirri þjónustuþörf sem hefur myndast á undanförnum misserum,“ segir hann.
Eftir að uppbyggingaráætlun húsnæðis fyrir fatlað fólk var samþykkt árið 2017 hafa 170 einstaklingar fengið úthlutað húsnæði. Flestir þeirra fengu húsnæði árið 2021, eða alls 55 einstaklingar.
Sveitarfélög tóku við málaflokki fatlaðs fólks frá ríkinu 2011. Frá þeim tíma hefur eftirspurn eftir sérútbúnu húsnæði aukist til muna. Árið 2011 bjuggu 219 einstaklingar í húsnæði fyrir fatlað fólk í Reykjavík. Í lok árs 2016 bjuggu 310 manns í húsnæði fyrir fatlaða í Reykjavík en það var ári áður en uppbyggingaráætlunin var samþykkt. Í lok árs 2021 voru 489 manns búsettir í húsnæði fyrir fatlað fólk í Reykjavík, þar af 133 íbúar í húsnæði með stuðningi.