BHM vill hefja kjaraviðræður við atvinnulífið og ríkið strax

Friðrik Jónsson, formaður BHM.
Friðrik Jónsson, formaður BHM. Ljósmynd/Aðsend

Friðriki Jónssyni, formanni Bandalags háskólamanna (BHM) hefur verið falið sameiginlegt viðræðuumboð aðildarfélaga BHM vegna komandi kjarasamninga og er mælst til þess að hann hefji viðræður við viðsemjendur og stjórnvöld án tafar. „Ég vildi helst setjast niður til viðræðna strax í dag,“ segir Friðrik í samtali við Morgunblaðið.

Það er formannaráð BHM, sem samþykkti umboðið, en í því sitja formenn allra 28 aðildarfélaga BHM. Félögin hafa hin síðari ár farið sjálf með viðræður af þessu tagi en hafa nú ákveðið að hefja viðræður sameinuð undir forystu Friðriks. Rétt er þó að árétta að þetta er viðræðuumboð, ekki samningsumboð. Komið verður á fót viðræðunefndum um tiltekna þætti en aðildarfélög BHM halda áfram að útfæra einstakar kröfugerðir sínar, sem lúta að sérmálum.

Að sögn Friðriks telur BHM að ekki sé eftir neinu að bíða, enda þótt opinberir samningar þess renni ekki út fyrr en á komandi ári. „Við viljum ekki lenda í þeirri stöðu að hér renni samningar út í lok mars og svo líði 6-12 mánuðir áður en nýir samningar taki við,“ segir hann og efnahagsaðstæðurnar ýti frekar á eftir.

Vill stöðva kaupmáttarbrunann

„Við erum í tvöföldum kaupmáttarbruna – annars vegar vegna verðbólgu og hins vegar vegna vaxtahækkana. Markmiðið hlýtur að vera að stöðva það sem fyrst en því lengur sem það dregst, því erfiðara verður það,“ segir Friðrik.

„Þess vegna viljum við hefja samtal við alla okkar viðsemjendur, helst sem fyrst.“

Nokkur ólga hefur verið innan verkalýðshreyfingar, formaður ASÍ felldur af stalli, mjög afdráttarlausar kröfur settar fram af sumum verkalýðsleiðtogum, þó formenn VR og Eflingar virðist ekki lengur ganga í takt. Er einhver von um að hreyfingin í heild vilji eða geti samið?

„Það er ekki gefið en það stendur a.m.k. ekki á BHM. Ég er fyrsti formaður heildarsamtaka í núverandi kjaralotu, sem er með sameinað bandalag að baki mér og kominn með viðræðuumboð. Sú er ekki raunin hjá ASÍ, sú er ekki raunin hjá BSRB og sú er ekki raunin hjá Kennarasambandinu.“

Er ekki óvenjulegt að BHM leiði samningana?

„Jú, en óvenjulegar aðstæður geta kallað á óvenjulegar lausnir. Við erum klár í þetta samtal.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert