Maður, sem er talinn hafa staðið að skotárás sem átti sér stað í Grafarholti í febrúar, er fyrrverandi kærasti konu sem særðist í árásinni. Hún þurfti að gangast undir aðgerð til að fjarlægja byssukúlu eftir að hún var skotin með skammbyssu í kviðinn. Þá var auk þess karlmaður skotinn í lærið í sömu árás. Maðurinn játaði hvorki aðild sína að málinu né neitaði fyrir lögreglu.
Þetta kemur fram í nýlega birtum úrskurði Landsréttar sem var kveðinn upp 22. febrúar. Í honum féllst Landsréttur á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manninum og staðfesti þar með úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur sama efnis.
Fram kemur í úrskurði héraðsdóms að fljótlega eftir skotárásina hafi vaknað grunur um að tveir menn væru viðriðnir skotárásina en meðal þess sem lögregla byggði grun sinn á voru upplýsingar sem henni höfðu borist um að fyrrverandi kærasti konunnar hefði ítrekað hótað henni líflati og líkamsmeiðingum. Þá hafi bíll ömmu samverkamanns fyrrverandi kærasta konunnar, sem hann hafði til umráða, verið á vettvangi þegar skotárásin átti sér stað.
Bifreiðin fannst sama dag og árásin átti sér stað. Við leit í bifreiðinni fannst skammbyssa sem er talin hafa verið notuð við árásina en talið er að hlaupvídd skammbyssunnar stemmi við stærð byssukúlunnar sem var fjarlægð úr kviði konunnar. Þá segir í umræddum úrskurði héraðsdóms að samverkamaður mannsins, sem einnig hefur réttarstöðu sakbornings í málinu, hafi greint frá því að hafa unnið verk fyrir manninn gegn greiðslu. Ekki er þó tekið fram hvers konar verk hafi verið um að ræða og hvort það tengdist árásinni. Þá kemur fram í téðum úrskurði að skilaboð liggi fyrir úr símtæki mannsins sem lögregla hefur undir höndum. Þau ku benda sterklega til þess að maðurinn hafi staðið að árásinni.
Landsréttur féllst á kröfu um áframhaldandi gæsluvarðhald þar sem rökstuddur grunur væri um að maðurinn væri sekur um tilraun til manndráps, en við því broti er að lágmarki 5 ára fangelsisrefsing.