Heitasti dagur ársins á Íslandi er í dag þar sem hitinn á Mánárbakka á Tjörnesi fór upp í 25 gráður núna rétt áðan. Veðurstofan staðfesti þetta í samtali við mbl.is.
Síðast fór hitinn upp í 24,4 gráður þann 19. júní síðastliðinn á Egilsstaðaflugvelli og Hallormsstað en það met hefur nú verið slegið.
Fyrr í dag hafði mbl.is greint frá því að legið hefði nærri að hitamet sumarsins hefði verið slegið. Stuttu síðar hækkaði hitinn örlítið á Tjörnesinu og var metið þar með í höfn.
Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, á ekki von á því að hitastig hækki enn frekar í dag.
„Ég get ekki útilokað það en mér finnst það ekkert sérstaklega líklegt,“ segir Birgir Örn.