Einum tíunda úr stigi munar að dagurinn í dag sé sá hlýjasti á Íslandi í ár samkvæmt mælingum Veðurstofu.
„Þetta er nálægt því að vera hlýjasti dagur ársins en hitinn fór upp í 24.4 gráður 19. júní á Egilsstaðaflugvelli og Hallormsstað,“ segir Birgir Örn Höskuldsson, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands en hiti á Mánárbakka á Tjörnesi mældist 24.3 gráður í dag.
Veðrið fyrir sunnan er mjög ólíkt því fyrir norðan og norðaustan en talsverður vindur og úrkoma hefur verið á höfuðborgarsvæðinu í dag meðan veðurblíða ríkir annars staðar á landinu.
„Þessi dagur er í hlýrra lagi en að öðru leyti er þetta ekkert óvenjulegt veðurástand. Það er milt loft í grunninn eins og sést á hitatölunum svo jafnvel þó það sé rigning hér þá er ekki kalt úti,“ segir Birgir Örn en hitinn mælist 13 gráður í Reykjavík þrátt fyrir úrkomu.