Telur ólíklegt að vindmyllur fjúki á Íslandi

Vindmyllur við Búrfell.
Vindmyllur við Búrfell. Árni Sæberg

„Þetta er fyrirtæki sem ég held að hafi ekkert verið starfandi í nágrenni við okkur, til dæmis á Norðurlöndum þar sem aðstæður eru svipaðar og hér,“ segir Unnur María Þorvaldsdóttir, forstöðumaður þróunar vindorku hjá Landsvirkjun í samtali við mbl.is.

Vísar Unnur þar í framleiðandann Nordex, en vindmylla á þeirra vegum fauk í roki í Bridgend í Wales í gær. Vindhraðinn var þá allt að 80 km/klst. Vakti atvikið áhyggjur íbúa Bridgend um aðrar vindmyllur þar í landi.

„Við erum með tvær rannsóknarvindmyllur í rekstri hjá okkur og eru þær ekki frá þessum framleiðanda,“ bætir Unnur við en rannsókn á vegum Nordex leiddi í ljós að ástæða foksins hafi verið að vindmyllan hafi snúist of hratt í fjórar klukkustundir.

Þurfa að standast íslenskar aðstæður

Þýski framleiðandinn Enercon framleiðir rannsóknarvindmyllurnar sem Landsvirkjun rekur og segir Unnur þær hafa reynst afar vel í þeim aðstæðum sem við búum við á Íslandi.

Meðalvindhraði á svæðinu er að jafnaði 10-12 m. sek og svæðið er fjarri byggð en skammt frá öllum nauðsynlegum innviðum svo sem flutningslínum og vegum.

„Við förum með öll okkar verkefni í útboð og þá eru settar mjög strangar kröfur. Framleiðendur sem svara útboði hjá okkur þurfa að standast íslenskar aðstæður og það umhverfi sem við búum við,“ segir Unnur en mesti hraði sem Landsvirkjun hefur mælt í einni vindhviðu er 59 m/s.

„Getur alltaf eitthvað komið upp á“

Spurð hvort einhver hætta sé á því að vindmyllur fjúki í rokinu á Íslandi segir Unnur að það geti alltaf eitthvað komið upp á, sama hvaða orkugjafi sem um ræðir.

„En við reynum að draga úr allri áhættu eins vel og við getum. Ég hugsa að líkurnar séu þó afskaplega litlar, þetta er í það minnsta fyrsta tilfellið sem ég hef séð,“ segir Unnur um atvikið í Wales.

En hvað er gert til að draga úr áhættunni á foki?

„Það er mismikill klassi á vindmyllum, þá hversu mikinn vind þær þola og miðum við þá alltaf við hæsta klassa sem þolir hvað mestan vindstyrk.“

„Við skoðum þá mjög vel við hvaða aðstæður við búum við og fáum ráð frá öðrum Norðurlöndum en það eru lönd í kringum okkur með vindmyllur í rekstri á mun meira krefjandi stöðum en við,“ segir Unnur að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka