Tveir með stöðu sakbornings vegna skotárásarinnar

Páley Borgþórsdóttir er lögreglustjóri á Norðurlandi eystra.
Páley Borgþórsdóttir er lögreglustjóri á Norðurlandi eystra. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Tveir einstaklingar eru með réttarstöðu sakbornings vegna skotárásarinnar á Blönduósi fyrr í þessum mánuði. Þetta staðfestir Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, í samtali við mbl.is.

Áður hafði verið greint frá því að sonur hjónanna sem fyrir árásinni urðu hefði verið handtekinn á vettvangi og hann fengið stöðu sakbornings, en hann er talinn hafa ráðið niðurlögum árásarmannsins. Honum var sleppt samdægurs og ekki farið fram á gæsluvarðhald. 

Tvennt lést í árásinni, kona á sextugsaldri, Eva Hrund Pétursdóttir, og árásarmaðurinn sjálfur. Maður Evu Hrundar, Kári Kárason, særðist alvarlega og hefur legið þungt haldinn á sjúkrahúsi. Hann er nú kominn til meðvitundar og var tekin af honum fyrsta skýrsla í gær.

Tvennt lést í árásinni; kona á sextugsaldri og árásarmaðurinn.
Tvennt lést í árásinni; kona á sextugsaldri og árásarmaðurinn. mbl.is/Hákon

Meðal annars unnið með tölvu- og símagögn

Páley segist ekki geta tjáð sig um það hvort framburður Kára hafi varpað frekara ljósi á málsatvik, en það gefi auga leið að framburðurinn sé mikilvægur. Hún gerir ráð fyrir að það þurfi að taka skýrslu af honum aftur, enda sé það yfirleitt gert.

Kári er enn á sjúkrahúsi og veikburða en hann er með meðvitund og áttaður og var það metið svo af heilbrigðisstarfsfólki að heilsa hans væri nógu góð til að gefa skýrslu.

Páley segir rannsókninni miða vel. „Við erum að afla gagna úr öllum áttum. Það er verkefnið okkar í dag.“ Meðal annars sé verið að vinna með tölvu- og símagögn. Enn sé þó beðið eftir niðurstöðum úr ýmsum rannsóknum, til að mynda úr réttarkrufningu.

Aðspurð hvort það sé vitað með vissu að árásarmanninum hafi verið ráðinn bani, segir hún það ekki liggja fyrir. Þá getur hún heldur ekki tjá sig um það hvort vopn hafi verið notað á árásarmanninn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert