Ágætis hugmynd að hefja samtalið fyrr

Veðrið lék ekki við ráðherrana þegar þeir mættu til fundar …
Veðrið lék ekki við ráðherrana þegar þeir mættu til fundar á Bessastöðum í dag. mbl.is/Hákon Pálsson

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kveðst opinn fyrir því að hefja samtöl um grundvöll nýrra kjarasamninga nú þegar. 

„En ég tel að slíkt samtal eigi fyrst og fremst að vera um helstu forsendur endurnýjaðra kjarasamninga, en ekki um kröfur á ríkisstjórnina eða stjórnvöld,“ tjáði hann blaðamanni mbl.is að loknum fundi ríkisráðs. 

Formaður BHM vill hefja viðræður fyrr en ella

Friðrik Jónsson, formaður BHM var gestur Dagmála Morgunblaðsins, þar sem hann lýsti þeirri skoðun að vegna óvissunnar sem ríkir á íslenskum efnahagsmarkaði, sé þeim mun mikilvægara að setjast fyrr til samningagerðar.

Þá sé óæskilegt þegar það myndist tímabil, milli þess sem kjarasamningar renna út, og þar til nýir taka gildi. Á slíku tímabili sé hætt við verulegri kaupmáttarrýrnun.

Tökum því fagnandi

Bjarni segir að til lengri tíma litið sé ekki gott að ítrekað skapist bið eftir nýjum kjarasamningum. 

„Ég tek eftir því að það hefur verið gefið umboð til viðræðna og við tökum því fagnandi ef við getum með einhverjum hætti hjálpð til við að tryggja að samningar verði ekki látnir renna út og langur tími líði þar til þeir verða endurnýjaðir.“

Góð hugmynd burt séð frá óvissunni

Spurður hvort hann taki undir orð Friðriks um að það sé þeim mun mikilvægara að ganga fyrr til samninga í ljósi óvissunnar sem ríkir, segir Bjarni:

„Ég held að það megi færa rök fyrir því að það sé hægt að draga úr áhyggjum með samtali ef það er mikil óvissa framundan en sögulega séð höfum við gjarnan séð styttri samninga eftir því sem óvissan er meiri og ýmsir fyrirvarar settir í samninga vegna óvissunnar sem er látið reyna á.“

Burt séð frá óvissunni telur hann ágætis hugmynd að hefja samtal í góðum tíma fyrir lok fyrri kjarasamninga. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert