Duldar auglýsingar eru bannaðar

Þá þarf einnig að vera ljóst af færslunni fyrir hvern …
Þá þarf einnig að vera ljóst af færslunni fyrir hvern er verið að auglýsa og í þeim tilvikum þar sem það er ekki augljóst af vörunni sem er auglýst, þarf að tilgreina fyrirtækið sérstaklega. AFP/Kirill Kudryavtsev

Duldar auglýsingar eru bannaðar hvar sem þær birtast og samkvæmt lögum á auglýsing að vera þannig úr garði gerð að sá sem sér hana viti að um auglýsingu sé að ræða. Merkingarnar þurfa að vera skrifaðar með áberandi og skýrum hætti og þurfa áhorfendur strax að vita að um auglýsingu sé að ræða.

Þetta kemur fram í uppfærðum leiðbeiningum Neytendastofu um merkingar auglýsinga á samfélagsmiðlum en duldar auglýsingar hafa þó lengi verið bannaðar, bæði hér á landi og í Evrópu.

„Ef neytendur átta sig ekki á þeim skilaboðum sem verið er að koma á framfæri með markaðssetningu þá eru þeir síður í aðstöðu til þess að taka gagnrýna og upplýsta ákvörðun um viðskipti. Málið snýst um traust og heiðarleika,“ segir í leiðbeiningum stofnunarinnar.

Lagalegur réttur

Þá segir einnig í leiðbeiningunum að neytendur eigi lagalegan rétt á að vita hvenær verið sé að reyna að selja þeim eitthvað og verða þeir að geta treyst því að lýsingar á vöru og þjónustu séu raunverulegar skoðanir en ekki keyptar. Skiptir þá ekki máli hvort varan eða þjónustan sé jafngóð og af er látið.

Samkvæmt leiðbeiningum Neytendastofu verður merkingin, sem gefur til kynna að um auglýsingu sé að ræða, að vera staðsett á áberandi stað með stóru og skýru letri, og verður hún að vera orðuð með skýrum hætti. Þarf áhorfendum að verða strax ljóst að þetta sé auglýsing og ættu þeir ekki að þurfa að leita eða fletta áfram í færslum til að gera sér grein fyrir því.

Ekki nóg að hafa merkingar uppi í horni

Þá er merking á mynd eða myndskeiði ekki nægilega áberandi ef hún er staðsett langt út á brún eða uppi í horni, eða henni snúið á hvolf eða á hlið/og eða er nálægt einhverju öðru sem beinir athygli áhorfenda frá henni, eða felur hana nánast alveg. Þá er merking í texta ekki nægilega skýr ef hún er falin innan um aðrar upplýsingar í textanum.

Hvað orðalag varðar er mælt með að styðjast við orðin auglýsing eða auglýsingar. Önnur orðasambönd gætu verið talin of óskýr með tilliti til viðeigandi lagaákvæða, samkvæmt leiðbeiningum Neytendastofu. Til að mynda væri því ekki nóg að merkja einungis fyrirtækið sem auglýst er við færsluna. 

Þá þarf einnig að vera ljóst af færslunni fyrir hvern er verið að auglýsa og í þeim tilvikum þar sem það er ekki augljóst af vörunni sem er auglýst, þarf að tilgreina fyrirtækið sérstaklega.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert