„Þetta var rosalega skrítin en skemmtileg upplifun,“ segir Einar Bárðarson er hann rifjar upp kynni sín af Mikhaíl Gorbatsjov, fyrrum leiðtoga Sóvétríkjanna sem féll frá í gær 91 árs að aldri, í samtali við mbl.is.
Árið 2006 fékk Einar, sem var á þeim tíma tónleikahaldari í Reykjavík, Mikhaíl Gorbatsjov til Íslands í tilefni þess að 20 ár voru liðin frá leiðtogafundi Gorbatsjovs og Ronalds Reagans þáverandi Bandaríkjaforseta sem haldinn var í Höfða í Reykjavík árið 1986.
„Við höfðum verið að huga að því að fá fyrirlesara til landsins og félagi minn sem þá var að vinna fyrir útflutningsráð í Bandaríkjum, hefur orð á því við mig að fá Gorbatsjov. Við sendum honum svo tölvupóst og fengum hann til að mæta,“ segir Einar en Gorbatsjov flutti fyrirlestur í Háskólabíó 12. október 2006.
„Þetta var merkilegt fyrir kaldastríðsbarn eins og mig að vera hluti af þessu, náttúrulega svolítið öðruvísi en að vera með Van Morrison, James Taylor og Elvis Costello á eftir sér. Öll þessi vika sem fór í þetta á sínum tíma er í minni mínu mjög súrrealísk,“ heldur Einar áfram.
Fyrirlestur Gorbatsjov var sá fyrsti í röð fyrirlestra sem Einar stóð fyrir undir merkjunum "Stefnumót við leiðtoga".
Einn eða tveir fyrirlesarar komu í kjölfar Gorbatsjov en Einar segir að hann hafi áttað sig á að þetta var ekki vettvangur sem þeir sem höfðu umsjón með höfðu mikinn áhuga á þó að upplifunin hafi vissulega verið eftirminnileg.
„Þetta er ein af stærstu manneskjum 20. aldarinnar. Ég meira segja hafði vit á því að ná mynd af okkur saman sem ég var ekki mikið fyrir á þessum tíma.“
Einar segir Gorbatsjov hafa verið afskaplega þægilegan og viðkunnanlegan mann.
„Þrátt fyrir alla túlkana sem voru með honum var hann reiprennandi í ensku. Maður var hálf stjörnusleginn í þetta skipti, við að rölta um og sitja í bíl með einum frægasta manni 20. aldarinnar.“
Einar greinir þá frá því að rússneska leyniþjónustan hafi óvænt verið á Reykjavíkurflugvelli þegar vél Gorbatsjov lenti, en fyrir heimsóknina hafði hvorki verið haft samband né viðburðinum sýndur neinn áhugi af hálfu rússneska sendiráðsins.
„Þegar við erum um það bil að taka á móti flugvélinni fyllist anddyrið á flugvellinum af einhverjum mönnum sem við áttuðum okkur svo á að voru fulltrúar frá rússneska sendiráðinu sem ætluðu að taka á móti honum,“ útskýrir Einar.
Einar segir þetta hafa verið heljarinnar uppákoma sem endaði með því að sendiráðsfulltrúunum var vísað í burtu, en rússneska leyniþjónustan fylgdi Einari og félögum hans hins vegar eftir alla þá fjóra daga sem Gorbatsjov var á landinu, en þeir voru alls ekki á landinu að beiðni Gorbatsjov, sem var ekki vinsæll í Rússlandi á þeim tíma.
„Ég held ég sé nú ekki á neinum lista hjá rússnesku leyniþjónustunni en það er kannski ágætt að maður hafi ekki verið með meiri derring en þurfti,“ segir Einar að lokum léttur í bragði.