Geimfaraþjálfun rannsóknarhópsins Chill-ICE, sem fór fram í Stefánshelli í Hallmundarhrauni, er nú lokið.
Verkefnið sem hópurinn vinnur að er hluti af híbýlahönnun fyrir tunglið og Mars, og fólst rannsókn hópsins í því að gera tilraun til að þjálfa lengri veru á svæði sem svipar til
þess sem finnst á tunglinu. Þótti Ísland heppilegur staður fyrir tilraunina þar sem hér er að finna helli sem á að líkjast þeim sem finna má á tunglinu.
Vegna mikillar geislunar og hættu á að verða fyrir loftsteinum er ekki talið ráðlegt að vera á yfirborði tunglsins í lengri tíma, því gætu hellar á tunglinu og Mars verið ákjósanlegri fyrir híbýli og rannsóknarstöðvar.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Space Iceland.
Þetta mun vera í þriðja sinn sem hópurinn kemur til landsins í samstarfi við Space Iceland en hann kom fyrst hingað árið 2020 í forathugun og síðasta sumar fór fram fyrsta stig rannsókna.
Rannsóknarhópurinn í ár skoðaði dagana og vikurnar eftir að híbýli er risið og geimfararnir þurftu að sinna sínum daglegu störfum, að því er fram kemur í tilkynningunni.
Rannsóknarhópurinn, sem er á vegum ICEE Space, saman stendur af rannsakendum frá Hollandi, Póllandi, Bretlandi, Indlandi, Ítalíu, Ástralíu, Bandaríkjunum og Spáni. ICEE Space er frumkvöðlafyrirtæki sem sérhæfir sig í rannsóknum, þróun og tilraunum fyrir áframhaldandi könnun mannkyns á geimnum.