Hafa enn ekki sektað áhrifavalda

Neytendastofa hefur ekki sektað fyrir duldar auglýsingar.
Neytendastofa hefur ekki sektað fyrir duldar auglýsingar. mbl/Arnþór Birkisson

Neytendastofa hefur ekki sektað áhrifavalda fyrir duldar auglýsingar þrátt fyrir að slík tilfelli hafi komið upp en ekki er sektað nema fyrir ítrekuð brot. 

Almennt hafa þeir sem eru að kynna vörur eða þjónustu á samfélagsmiðlum gegn endurgjaldi verið duglegri en áður við að taka fram að um auglýsingu sé að ræða en slíkar merkingar eiga það þó til að vera óskýrar – sem í mörgum tilfellum er ekki nóg og stangast á við lög.

Þetta segir Þórunn Anna Árnadóttir, forstjóri Neytendastofu.

Neytendastofa gaf í dag út uppfærðar leiðbeiningar um merkingar auglýsinga á samfélagsmiðlum og er þeim ætlað að auðvelda þeim sem taka að sér að auglýsa vörur eða þjónustu gegn endurgjaldi að standa rétt að merkingum auglýsinganna svo að skilyrðum viðeigandi laga sé uppfyllt. 

Fram kemur í leiðbeiningunum að duldar auglýsingar séu bannaðar, bæði á Íslandi og í Evrópu, og er fólki ráðlagt hvernig hægt sé að merkja auglýsingar með skilmerkilegum hætti svo þær standist lög. Er m.a. tekið fram að merkingar megi ekki vera faldar uppi í horni á skjáum heldur verði þær að vera skrifaðar með skýrum stöfum. Þá þurfi áhorfandi að sjá strax að um auglýsingu sé að ræða.

Leiðbeiningarnar skýrar

Að sögn Þórunnar Önnu voru síðustu leiðbeiningar stofnunarinnar um merkingu auglýsinga gefnar út árið 2015. Hafa margir áhrifavaldar kallað eftir skýrari og betri útfærslu þeirra. 

Aðspurð segir Þórunn Anna nýju leiðbeiningarnar eins skýrar og mögulegt er en aldrei sé þó hægt að útbúa tæmandi lista.

„Auðvitað er margt sem þarf að meta í hverju tilviki fyrir sig – hvað er nógu skýr merking og er þetta auglýsing. Maður getur oft ekki gefið út algjörlega nákvæmlega hvernig þetta á að vera því aðstæður geta verið ólíkar.

Bara hlutir eins og ólíkur markhópur. Maður gerir meiri kröfur til merkinga gagnvart börnum heldur en fullorðnum, þannig það eru alltaf atriði sem þarf að meta.“

Hún segir þó grunnregluna frekar einfalda: Ef þú ert að fá endurgjald fyrir umfjöllun þá þarf að merkja það sem auglýsingu. Þá segir hún áhrifavalda geta haft samband við stofnunina þurfi þeir frekari leiðbeiningar.

Þórunn Anna Árnadóttir, forstjóri Neytendastofu.
Þórunn Anna Árnadóttir, forstjóri Neytendastofu. Ljósmynd/Stjórnarráðið

Staðið sig betur í merkingum

Neytendastofa hefur haft afskipti af þó nokkrum áhrifavöldum á síðustu árum sem stofnunin telur að hafi notað duldar auglýsingar á samfélagsmiðlum. 

„Við höfum tekið ákvarðanir um að banna háttsemi en við höfum ekki sektað nokkurn áhrifavald enn þá. En það er líka vegna þess að við sektum ekki fyrir fyrsta brot.“

Að sögn Þórunnar Önnu hafa flestir áhrifavaldar staðið sig mun betur í að merkja auglýsingar upp á síðkastið. Ábendingar sem berast stofnunninni nú, varðandi hvort merkingar auglýsinga standist lög, varða nú fyrst og fremst óskýrar merkingar.

Eru til að mynda dæmi um að skammstafanir séu notaðar þegar auglýsingar eru merktar og merkingar skrifaðar á ensku í stað íslensku.

Sem dæmi nefnir Þórunn Anna skammstöfunina „SP“ sem er stytting á enska orðinu sponsored – sem væri hægt að þýða á íslensku sem „styrkt af“.

„Sumir merkja með því og það er einmitt eitthvað sem þarf að meta – er það nógu skýrt, er það til þess fallið að fólk skilji að þetta sé samstarf og að þetta sé auglýsing.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert