Klára að reikna launakröfuna í dag

Veitingastaðurinn Bambus er staðsettur í Borgartúni.
Veitingastaðurinn Bambus er staðsettur í Borgartúni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fundur Fagfélaganna og eigenda veitingastaðanna Bambus og Flame sem átti að fara fram í dag féll niður. Þetta staðfestir Benóný Harðarson, forstöðumanns kjarasviðs Fagfélaganna, í samtali við mbl.is.

Eigendurnir, sem sakaðir hafa verið um stórfelldan launaþjófnað, óskuðu sjálfir eftir fundinum í dag en ástæða þess að hann féll niður var sú að nýir lögmenn eigenda höfðu ekki náð að setja sig inn í málið og ekki var búið að klára að fullreikna launakröfuna. Aðilum þótti því tilgangslaust að funda.

Málið varðar þrjá starfs­menn sem komu hingað til lands frá Fil­ipps­eyj­um á veg­um vinnu­veit­anda. Talið er að þeir hafi unnið allt að sex­tán tíma á dag á lág­marks­laun­um, sex daga í viku. Hvorki hafi verið greitt vakta­álag, yf­ir­vinna né or­lof.

Á fundi á mánudaginn lögðu Fagfélögin fram sína fyrstu útreikninga og samkvæmt þeim áttu laun starfsmannanna að vera allt að þrefalt hærri en þau voru. Næsta skref er að ljúka við útreikningana.

„Staðan á málinu er þannig að við klárum að reikna út launakröfu og sendum hana á fyrirtækið í framhaldinu,“ segir Benóný.

Verði krafan ekki greidd þá fer í hún innheimtu og í framhaldinu dómstólaleiðina ef greiðslur skila sér ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert