Mikhaíl Gorbatsjov, síðasti leiðtogi Sovétríkjanna, var merkur maður fyrir sögu 20. aldar og maður breytinga, að mati Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.
Gorbatsjov féll frá í gær, en margir leiðtogar minnast hans í dag. Meðal annars forsætisráðherra og fjármálaráðherra Íslands.
Katrín bendir á að Íslendingar hafi sérstök tengsl við Gorbatsjov, einkum vegna fundarins á Höfða, sem batt í raun enda á hið kalda stríð milli Bandaríkjanna og Sovét ríkjanna.
„Þó Höfðafundurinn hafi ekki skilað þeim árangri sem margir væntu, þá var hann í raun og veru, þegar sagan er skoðuð, algjör forsenda þess árangurs sem síðar náðist í afvopnunarmálum,“ segir Katrín og bætir við að heimurinn hafi um leið orðið að öruggari stað.
„Það er mál sem hefur verið mér sérstaklega hugleikið á undanförnum árum, þegar raknað hefur smám saman upp úr þeim afvopnunarsamningum sem heimurinn var áður búinn að koma sér saman um.“
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra minnist Gorbatsjov sem mikils stjórnmálaleiðtoga.
„Maður sem hafði kjark til að stíga inn í þessar aðstæður og hafa skoðun á því fyrir sína þjóð og langt út fyrir hana, hvað væri til heilla fyrir mannkyn í þessum heimshluta.“
Þá segir hann Gorbatsjov hafa lagt sitt af mörkum til að draga úr spennu „og fyrir það er hans minnst.“
„Hér hefur fallið frá leiðtogi sem lét gott af sér leiða. Eftir því er tekið, hversu margir hafa látið þau orð falla vestanhafs og Evrópu, sem voru að öðru leyti ekki hlynntir utanríkismálastefnu Sovétríkjanna á þeim tíma.“