Talsvert meira vatnsmagn er nú í Hvítá heldur en var í morgun, að sögn Sigríðar Magneu Óskarsdóttur, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofu Íslands.
„Það hækkar áfram í ánni og búið að rigna eins og hellt sé úr fötu í dag. Vatnshæðin fer bara lóðbeint upp, má eiginlega segja, sérstaklega núna eftir klukkan eitt.“
Hlaup er ekki hafið í Hafrafellslóni, en Sigríður telur frekar líklegt að það gerist á næstu dögum.
„Það er erfitt að segja til um það þegar þú færð svona mikla rigningu ofan í þetta. Þannig að við verðum aðeins að bíða og sjá en við sjáum að hún er ekki búin að ná sama hámarki og hún náði í gær. Við verðum svolítið að fylgjast með vefmyndavélum og vatnshæðinni,“ segir Sigríður.