Til skoðunar er að breyta löggjöfinni í kringum launaþjófnað og hefur verið í talsverðan tíma, að sögn Guðmundar Inga Guðbrandssonar, félags- og vinnumarkaðsráðherra.
„Við höfum verið að skoða löggjöfina í kringum launaþjófnað og ég lagði fram frumvarp á síðasta þingi sem meðal annars tók á þessu, en það hefur ekki náðst nægjanleg samstaða um það meðal aðila vinnumarkaðarins.“
Eigendur veitingastaðanna Flame og Bambus hafa verið sakaðir um stórfelldan launaþjófnað, en talið er að starfsmenn sem komu hingað til lands frá Filippseyjum á vegum vinnuveitanda hafi unnið allt að sextán tíma á dag á lágmarkslaunum, sex daga í viku. Ekki hafi verið greitt vaktaálag, yfirvinna eða orlof.
„Ef rétt reynist, að þá finnst mér þetta mál og önnur mál þar sem launaþjófnaður hefur komið fyrir, mér finnst þetta bara forkastanlegt,“ segir Guðmundur Ingi.
Launaþjófnaður sé gríðarlega alvarlegt brot á grundvallarréttindum launafólks.
„Þarna er verið að ráðast að þeim grundvallarrétti að fá greidd laun fyrir þá vinnu sem viðkomandi leggur fram. Þetta bitnar náttúrulega mest á innflytjendum og fólki sem er með lægri laun og það fólk má að sjálfsögðu síst við þessu. Þannig að þetta er mikið réttlætismál,“ segir hann.
„Að mínu mati er mjög mikilvægt að við náum betur utan um þetta og sú vinna er í gangi. Nú er í skoðun með hvaða hætti við nálgumst þetta og það þarf gott samtal meðal aðila vinnumarkaðarins við ráðuneytið.“