Nú þegar hausta tekur fer óðfluga að styttast í réttir víða um land og þurfa sauðfjárbændur að fara að huga að göngum.
Fáir þurfa þó að undirbúa sig jafn vel og Gnúpverjar, sem leggja af stað í leitir í dag, en það tekur að jafnaði níu daga að smala fé af Gnúpverjaafrétt. Eru það með lengstu göngum á landinu, ef ekki þær lengstu, en afrétturinn nær alla leið frá Þjórsárdal og inn undir Hofsjökul.
Guðmundur Árnason, fjallkóngur frá Þjórsárholti, segir daginn leggjast vel í sig og bindur hann vonir við að veðurspáin rætist en hún virðist líta vel út. Segir hann alla vel undirbúna og að eldað verði ofan í hópinn á öllum stöðum.
„Ég er vel hestaður og allt í góðu standi,“ segir Guðmundur í samtali við mbl.is.
Um 1.600 ær og lömb voru rekin á afrétt í sumar en farið verður í þremur hollum til að smala. Sjö manna hópur leggur af stað á morgun klukkan tvö frá Fossnesi í Gnúpverjahreppi, og seinni tveir hóparnir leggja af stað á laugardaginn og sunnudaginn.
Gist verður í fjórum skálum á leiðinni, Hólaskógi, Gljúfurleit, Bjarnalækjarbotnum og Tjarnarveri.
Skipulagt er að hópurinn komi með safnið til baka föstudaginn 8. september og réttað verði laugardaginn 9. september. Að sögn Guðmundar verður það mikill hátíðisdagur, líkt og réttir eru gjarnan.
Þrátt fyrir langar vegalengdir hefur yfirleitt gengið vel að manna göngurnar enda getur mikil stemning skapast, sérstaklega þegar veður er gott, segir Guðmundur.
Hann viðurkennir að vætusamt veður og rok eigi það til að draga úr stuðinu en segir göngurnar þó jafnan ganga vel og að lítið sé um óhöpp.
„En það kemur samt alltaf eitthvað. En það er sem betur fer lítið um það.“
Spurður hvort að nýstárlegar aðferðir í smalamennskunni, á borð við leitir með aðstoð dróna, hafi verið nýttar, segir Guðmundur lítið um það. Frekar sé notast við hefðbundnari leiðir eins og að fara ríðandi eða á fjórhjólum, svo eitthvað sé nefnt.
„Það er kannski allt í lagi í seinni leitum, þar sem fé er færra að nota það en þar sem maður veit að það eru kindur þá þarf maður hvort eð er að smala það,“ segir Guðmundur um drónana.