„Það er nauðsynlegt að ræða þessa hluti, sorgin er stór hluti af samfélaginu okkar,“ segir Stefnir Snorrason, varðstjóri hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins.
Stefnir flutti erindið „Á vettvangi skyndilegs andláts“ á ráðstefnu Sorgarmiðsvöðvar sem stendur yfir til klukkan fjögur í dag.
Ráðstefnan er ætluð syrgjendum, aðstandendum og öllum þeim fagaðilum sem vinna að velferð þeirra. Fjallað er um skyndilegan missi frá mismunandi sjónarhornum, svo sem af vettvangi, á vinnustöðum og frá sjónarhorni aðstandenda.
„Það sem við finnum svo mikið fyrir þegar við komum á vettvang er „sá sem syrgir hefur sannarlega elskað“, sú setning hefur snert mig mjög,“ segir Stefnir í samtali við mbl.is.
„Þegar þú finnur angist fólksins, það er enginn sem gengur í burtu óhreyfður frá slíku,“ segir hann.
„Mitt erindi snerist um að leiða aðstandendur og syrgjendur í gegnum hvaða ferli fer í gang þegar ég og mitt fólk komum á vettvang. Ef einstaklingur er úrskurðaður látinn á vettvangi, hvað tekur þá við?
Við erum alltaf að einblína á einstaklinginn sem við erum að sinna og ef við flytjum sjúkling í burtu þá missum við öll tengsl við aðstandendur, eins og gefur að skilja.“
Hann segir mikilvægt að hafa í huga hvernig hægt sé að hlúa betur að þeim sem missa ástvin skyndilega og það sé einnig það sem ráðstefnan snúist um.