Segir hestana lokaða inni og vannærða

Hestunum er yfirleitt ekki hleypt út í gerði nema að …
Hestunum er yfirleitt ekki hleypt út í gerði nema að nóttu til, segir Steinunn. Ljósmynd/Steinunn Árnadóttir

Slæm meðferð hestastóðs í Borgarbyggð hefur vakið óhug meðal íbúa á svæðinu. Steinunn Árnadóttir, ein þeirra sem er með hesta á húsi í sama hesthúsahverfi, segir hestamenn á svæðinu æfa yfir vanrækslu eigandans á dýrunum og að aðgerðarleysi ríki af hálfu yfirvalda.

Hún hafi margsinnis tilkynnt um ástandið á hestunum til Matvælastofnunar án þess að gripið hafi verið til aðgerða. Þá hafi hún einnig sent skriflegt erindi á matvælaráðherra síðasta mánudag en engin svör hafi borist.

Steinunn segir erfitt að fylgjast með hvernig komið sé fram við hestana en þeir séu flestir vannærðir og lokaðir inni í hesthúsi sem rúmi ekki stóðið. Þeim hafi ekki verið hleypt út í haga í sumar og nú sé þeim yfirleitt aðeins hleypt út í gerði að nóttu til. 

Dýralæknir hjá MAST segir málið vera í ferli en kvaðst þó ekki geta tjáð sig nánar um það. 

Vísir greindi fyrst frá.

Margir hafi sent tilkynningu

Fyrr í dag birti Steinunn mynd af hrossi úr hópnum á Facebook-síðu sinni.

Steinunn segir fjölda fólks nú hafa sett sig í samband við sig og tjáð henni að það hafi einnig sent inn tilkynningu um ástand hrossanna. Hefur fólk þá annars vegar hringt í neyðarlínuna og hins vegar haft samband við MAST.

„Það hefur ekki nokkur maður þorað að koma undir nafni nema ég. Ég veit ekki hvernig mér dettur það í hug en ég get ekki meira,“ segir Steinunn í samtali við mbl.is.

Á annan tug hesta

Að sögn Steinunnar telur hópurinn nú um 17 til 18 hesta sem séu misvel haldnir, þar á meðal er meri með folald. Þeir séu nú lokaðir inni í hesthúsi sem eigi ekki að hýsa fleiri en 12 hesta. 

„Það er mjög þröngt um þá og þeir fara aldrei út á daginn. Þeim er hleypt út á nóttunni. Hestamennirnir í Borgarnesi – við erum brjáluð yfir þessu.“

„Eina svarið sem við fáum er „Þetta er í ferli“ og það er búið að vera í ferli í allt sumar,“ segir Steinunn um viðbrögð MAST.

Bregðast strax við í alvarlegustu málunum

Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir sem fer með umsjón með heilbrigði og velferð hrossa hjá MAST, segir málið vera í ferli en kvaðst þó ekki geta tjáð sig nánar um þetta mál.

„Í alvarlegustu málum þá bregðumst við strax við. Þá getum við notað ákvæði í lögum til þess en annars gefum við bæði andmælafrest og frest til úrbóta.“

Þá sagði hún alvarleika málsins metinn út frá skoðun eftirlitsmanns.

„Eftirlitsmaður metur alvarleikann í samráði við sérfræðing stofnunarinnar á viðkomandi sviði og síðan eru aðgerðir ákveðnar út frá því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert