Sunneva Rós Kristvinsdóttir ætlar að láta drauminn rætast og opna dýraathvarf á Filippseyjum. Hún er hálf filippseysk og bjó þar í landi í fjögur ár þegar hún var yngri.
Árið 2019 heimsótti hún Filippseyjar aftur og sá þá mörg heimilislaus dýr á götunni, mjög illa farin, veik og hrædd.
„Sú ferð var mjög erfið fyrir mig þar sem ég er mjög mikill dýravinur,“ segir Sunneva Rós, sem er 22 ára og starfar hjá Isavia á Keflavíkurflugvelli.
Hún bjó í Danao, sem er hluti af borginni Cebu, og segir lítið hugsað þar um velferð dýra. Ótal mörg dæmi séu um dýraníð. Viðhorfið hjá fólki gagnvart dýrum sé allt öðruvísi en á Íslandi.
Hún kveðst hafa bjargað nokkrum dýrum þegar hún heimsótti Filippseyjar síðast en því miður sé ekkert athvarf fyrir þau í Danao. Tveggja tíma keyrsla er í næsta athvarf, sem er alltaf fullt, að hennar sögn.
„Ég á nokkra kunningja sem hafa boðist til að vera sjálfboðaliðar og góð vinkona mín ætlar að sjá um athvarfið á meðan ég er á Íslandi. Svo mun ég heimsækja það einu sinni á ári. Við ætlum að taka við öllum dýrum sem þurfa hjálp, en ég býst við að það verði aðallega kettir og hundar,“ greinir Sunneva Rós frá.
Spurð kveðst hún sannfærð um að verkefnið gangi upp. „Ég er með gott tengslanet þarna og flott fólk sem er meira en til í að aðstoða mig,“ segir hún og nefnir eina konu sem er með dýraathvarf heima hjá sér með yfir 40 ketti og hunda. Hún greiðir allt úr eigin vasa en hefur ekki pláss fyrir fleiri dýr.
Sunneva, sem á sjálf þrjá naggrísi, tvo ketti og einn hvolp, á 1.000 fermetra lóð á Filippseyjum og safnar nú fyrir girðingu sem hún ætlar að setja þar upp. Áætlað er að hún kosti 1,2 til 1,5 milljónir króna. Síðar ætlar hún að safna fyrir aðstöðu fyrir dýrin.
„Ég byrjaði að safna fyrir þessu verkefni fyrir þremur mánuðum, og núna er sjóðurinn kominn upp í 490.000 krónur. Margt fólk hefur hjálpað, ýmist með því að leggja inn á bankareikning hjá mér, þar sem ég hef sett allar upphæðir til hliðar, með því að gefa okkur dósir sem við höfum selt, og með því að gefa okkur föt til að selja. Við verðum nefnilega með bás í Verzlanahöllinni í miðbæ Reykjavíkur, þar sem við getum selt fötin og allur hagnaður fer þá í sjóðinn,“ segir hún en básinn verður uppi frá 7. september til 14. janúar.
Þegar dýraathvarfið verður komið í gagnið reiknar Sunneva með því að reksturinn kosti 120 til 150 þúsund krónur á mánuði. Hún býst við því að greiða einhver hluta úr eigin vasa en vonast einnig eftir styrkjum.
Fyrir þá sem vilja leggja Sunnevu Rós lið vegna girðingarinnar, sem hún vonast til að geta byrjað að smíða í desember, eru þetta bankaupplýsingarnar: 0542-26-310100, Kt. 310100-2850.