„Það er engin nýlunda að fólk sé forvitið um Saab-inn minn og ferðahýsið,“ segir Þjóðverjinn Thorsten Eckardt í samtali við Morgunblaðið en líkast til hefur fjöldi Íslendinga veitt þeim Ninu Schwitalla, ferðafélaga hans og vinkonu, athygli meðan á ferð þeirra um Ísland stóð síðustu vikur.
Það gerði að minnsta kosti Hákon Pálsson, ljósmyndari Morgunblaðsins, þegar hann rakst á þýsku ferðalangana á Skólavörðuholtinu á þessum sérkennilega færleik sem nánast mætti líkja við skáldfákinn Pegasus þótt ófleygur sé. Þessari vefútgáfu viðtalsins fylgja einnig myndir sem Eckardt tók á ferðalaginu um Ísland. „Þú býrð þar sem þú leggur,“ sagði hann við Morgunblaðið en Þjóðverjinn hefur farið um alla Evrópu og víðar á sænska fáknum með ferðahýsið.
„Núna sit ég í sólbaði á þilfari Norrænu og horfi yfir opið Atlantshafið einhvers staðar milli Hjaltlandseyja og Noregs,“ segir Eckardt er tal næst af honum. Saga Þjóðverjans og Saab 900-bifreiðar hans, árgerðar 1992, með ferðahýsinu af gerðinni Toppola, sem smíðað var í Svíþjóð árið 1984, er sem töfrum slungin, ekki síst fyrir þá ástríðu og þann áhuga sem gæðir frásögn Eckardts ólgandi lífi.
„Um 300 Toppola-ferðahýsi voru framleidd, hvert einasta þeirra handsmíðað, yfirbyggingin er úr trefjagleri eins og því sem notað er í báta og mitt er með öllum upprunalegu timburhúsgögnunum sem sérsmíðuð voru í þessi hýsi,“ útskýrir Eckardt af smitandi áhuga. Hann segir hýsin flest hafa verið smíðuð sérstaklega fyrir Saab-bifreiðar í Landskrona í Svíþjóð og bera upprunalegt varahlutanúmer frá Saab-verksmiðjunum, en einnig fyrir tvær Ford-gerðir, Sierra og Scorpio. „Þetta er stærsti og dýrasti Saab-aukahlutur sem framleiddur hefur verið,“ segir sá þýski sposkur.
Lesa má viðtalið í heild í Morgunblaðinu í dag.