Dæmdur fyrir fíkniefnabrot og peningaþvætti

Héraðsdómur Reykjaness.
Héraðsdómur Reykjaness. mbl.is/Ófeigur

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt karlmann í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir vörslur fíkniefna og peningaþvætti. 

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum höfðaði mál á hendur manninum með ákæru sem var gefin út í mars. Hann var ákærður fyrir fíkniefnalagabrot með því að hafa haft í vörslum sínum, á nokkurra mánaða tímabili í fyrra, ýmis fíkniefni í sölu og dreifingarskyni. M.a. maríhúana, amfetamín, kókaín og MDMA. Hann var ennfremur ákærðu fyrir vopnalagabrot 

Þá var hann ákærður fyrir peningaþvætti með því að hafa frá því í janúar 2020 til ágúst 2021 tekið við, aflað sér og einnig eftir atvikum nýtt, geymt eða umbreytt ávinninga að fjáhæð 4.398.791 kr. með sölu- og dreifingu ótiltekins magns af ávana- og fíkniefnum og ávana- og fíknilyfjum. 

Fram kemur í dómi héraðsdóms, að maðurinn hafi játað að stærstu hluta brot sín fyrir dómi. Hann neitaði þó upphaflega í skýrslutöku hjá lögreglu að hann væri að selja fíkniefni. 

Héraðsdómur komst þó að þeirri niðurstöðu að sakfella manninn fyrir ofangreind brot. 

„Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann ekki áður sætt refsingu og hann játaði að stærstum hluta brot sín fyrir dómi. Að þessu virtu og með hliðsjón af atvikum málsins þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í tólf mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar,“ segir í dómi héraðsdóms.

Þá gerði héraðsdómur fíkniefnin upptæk, þar á meðal 1,07 grömmum af kókaíni, 10,88 grömmum af amfetamíni, 7,66 grömmum af MDMA og 172,65 grömmum af maríhúana. Einnig grárri kylfu, hníf með 20 cm hnífsblaði, Apple iPhone farsíma og 13.000 krónum í reiðufé. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert