Ekki í fyrsta sinn sem MAST bregst seint við

Slæm meðferð hestastóðs í Borgarbyggð hefur vakið óhug meðal íbúa …
Slæm meðferð hestastóðs í Borgarbyggð hefur vakið óhug meðal íbúa á svæðinu. Ljósmynd/Steinunn Árnadóttir

Stjórn Dýraverndarsambands Íslands skorar á Matvælastofnun að sinna án tafar lögbundnum skyldum sínum varðandi velferð hrossa sem eru í neyð í Borgarbyggð.

Sambandið krefst þess einnig að MAST komi lögum yfir eigendur þeirra dýra sem eru í neyð í Borgarbyggð og tilkynntir hafa verið til stofnunarinnar.

Í gær var fjallað um slæma meðferð hesta­stóðs í Borg­ar­byggð sem vakið hef­ur óhug meðal íbúa á svæðinu. Að sögn Stein­unn­ar Árna­dótt­ur, einn­ar þeirra sem er með hesta á húsi í sama hest­húsa­hverfi, eru hest­arn­ir flest­ir vannærðir og lokaðir inni í hest­húsi sem rúmi ekki stóðið.

Lögreglan á Vesturlandi staðfesti í samtali við mbl.is fyrr í dag að hrossin hefðu verið flutt úr hesthúsinu í gærkvöldi.

Ítrekað haft samband við MAST

„Sýnt er að ítrekað hefur verið haft samband við yfirvöld um aðstæður dýranna án viðbragða af hálfu MAST,“ segir í tilkynningu frá Dýraverndarsambandinu.

Í facebook-færslu í gær skrifaði Dýraverndarsambandið að það hefði vitneskju um að málið hefði verið tilkynnt til lögreglu þrisvar sinnum síðan um miðjan júní og tilkynnt MAST þann 17. ágúst. Þá hafi sambandið ítrekað haft samband við MAST vegna málsins.

„Þetta mál í Borgarbyggð er ekki fyrsta tilvikið þar sem Matvælastofnun bregst seint og illa við rökstuddum grun um slæma meðferð á dýrum. MAST hefur þær lagaheimildir sem þarf til að bregðast tafarlaust við slíkum málum og ber að nýta þær,“ segir jafnframt.

Að lokum segir að við svo búið verði ekki unað og ljóst sé að taka verði til gagngerrar endurskoðunar eftirlitshlutverk stofnunarinnar með velferð dýra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert