„Hljómar eins og sturlun í mín eyru“

Ragnar Freyr Ingvarsson, formaður Læknafélags Reykjavíkur, telur í meira lagi …
Ragnar Freyr Ingvarsson, formaður Læknafélags Reykjavíkur, telur í meira lagi torkennilegt að birta reglugerð um sæbjúgu og ígulker á meðan reglugerð um þjónustu við tvö þúsund sjúklinga sé fallin úr gildi óframlengd. Ljósmynd/Aðsend

„Í gær var birt reglugerð um sæbjúgu og ígulker en ekki um þjónustu við tvö þúsund sjúklinga. Þetta hljómar bara eins og sturlun í mín eyru, að einhver gleymi að birta jafn mikilvægar upplýsingar og um réttindi sjúklinga til greiðsluþátttöku fyrir nauðsynlega þjónustu.“

Þetta segir Ragnar Freyr Ingvarsson, formaður Læknafélags Reykjavíkur, um reglugerð um endurgreiðslu kostnaðar vegna þjónustu sjálfstætt starfandi sérgreinalækna sem starfa án samnings við Sjúkratryggingar Íslands, endurgreiðslureglugerðina svokölluðu í daglegu tali, sem lauk sínum gildistíma í gær og hefur ekki verið framlengd. „Samningar Sjúkratrygginga við sérgreinalækna féllu úr gildi 31. desember 2018 og síðan hafa engir samningar gilt en [heilbrigðis]ráðherra hefur sett endurgreiðslureglugerð eins og honum ber að gera lögum samkvæmt og hefur svo framlengt þessa reglugerð í nokkra mánuði í einu,“ heldur Ragnar áfram.

Hvatti sjúkling til að leita réttar síns

Hann segir einingaverð fyrir læknisþjónustu hafa verið vísitölutengt um tíma en frá júní 2020 hafi einingaverðið hins vegar ekki hækkað og greiðslur til lækna staðið í stað. Læknar hafi þá brugðið á það ráð að leggja á ýmis önnur gjöld, svo sem viðbótargjöld, ógreidd aukagjöld og umsýslugjald sem farið hafi fram hjá kerfinu og lagst ofan á verðið sem endurgreiðslureglugerðin mælir fyrir um.

„Ráðherra ber að birta endurgreiðslureglugerð svo sjúklingar viti hvað fáist greitt frá ríkinu en engin slík reglugerð birtist sem þýðir að okkur er nauðugur einn kostur að rukka sjúklinginn um fullt verð samkvæmt okkar gjaldskrá frá og með deginum í dag,“ segir Ragnar. „Ég var að útskýra fyrir sjúklingi sem var hjá mér áðan að svona væri í pottinn búið og hvatti hana til að leita til Sjúkratrygginga Íslands og leita þar lögbundins réttar síns,“ heldur hann áfram.

Ragnar segir samningaumleitanir hafa átt sér stað síðustu misseri með það fyrir augum að semja á ný við sérfræðilækna. „Það var einn fundur í júní sem skilaði engum árangri, ekki frekar en fyrri fundir, stjórnvöld virðast hvorki hafa í hyggju að varðveita núverandi þjónustu né gera okkur kleift að vaxa til að mæta brýnni samfélagslegri þörf,“ segir formaðurinn.

470.000 læknisverk á ári

Hann kveður sjúklinga sækja gríðarmikið í þjónustu lækna og nefnir tölfræði máli sínu til stuðnings. „Við framkvæmum 470.000 læknisverk á ári og við erum 350 læknar. Þetta er margfalt það sem kemur til lækna Landspítalans á göngudeild. Ríkið greiddi sérgreinalæknum sjö milljarða árið 2020 á meðan það greiddi 20 milljarða til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og spítalinn tók 100 milljarða á síðasta ári og veitir vafalaust ekki af meira fé,“ segir Ragnar.

Ráðherra verði að setja reglugerð um endurgreiðslur meðan enginn samningur gildi svo sjúklingar hafi hugmynd um hvaða kostnað þeir þurfi að bera og hvað ríkið greiði. „Ég er búinn að senda aðstoðarmanni ráðherra fyrirspurn um málið og ég hef ekki fengið nein svör. Ekki fer ráðuneytið að klúðra því að birta reglugerð sem varðar þjónustu við 2.000 sjúklinga á hverjum einasta degi?“ spyr Ragnar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka