Keyrði á ofsahraða og hljóp á brott undan lögreglu

Lögreglan hafði í ýmsu að snúast í nótt.
Lögreglan hafði í ýmsu að snúast í nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ökumaður sem talinn er hafa ekið á um 200 km/klst á Reykjanesbraut á leið í Hafnarfjörð hljóp á brott frá lögreglu eftir að hafa stöðvað bifreið sína.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu en þar segir að lögreglumenn hafi skömmu eftir miðnætti ætlað að stöðva för bifreiðarinnar. Ökumaðurinn sem ók á miklum hraða hafi ekki sinnt stöðvunarmerkjum lögreglu og aukið hraðann. Bifreiðin hefur verið haldlögð fyrir rannsókn málsins.

Á sjötta tímanum í gærkvöldi var tilkynnt um innbrot og þjófnað í íbúðarhúsi í hverfi 108 en verðmætum var stolið. Þá segir í dagbókinni að húsráðandi hafi verið vistaður á sjúkrahúsi.

Eldur í íbúðagangi

Skömmu síðar var tilkynnt um eld í íbúðagangi við bílakjallara í hverfi 101. Slökkviliðið fór á vettvang en talið er að um rafmagnsbruna í loftljósi hafi verið um að ræða. Skemmdir eru sagðar minniháttar.

Nokkuð var um að lögregla stöðvaði bifreiðar í gærkvöldi og nótt þar sem ökumenn voru grunaðir um akstur bifreiðar undir áhrifum fíkniefna.

Þá var maður í annarlegu ástandi handtekinn í hverfi 101 eftir ítrekuð afskipti lögreglu. Maðurinn var grunaður um eignaspjöll og var hann vistaður í fangageymslu lögreglu sökum ástands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert