Læknar í höfuðborginni segja stjórnvöld sýna sjúkratryggðum borgurum landsins áhugaleysi og hafi brugðist skyldu sinni að tryggja órofna lögboðna sjúkratryggingu landsmanna.
Þetta kemur í það minnsta fram í ályktun félagsfundar Læknafélags Reykjavíkur sem haldin var í kvöld.
Ályktunin er eftirfarandi:
„Læknafélag Reykjavíkur harmar það áhugaleysi sem stjórnvöld hafa sýnt sjúkratryggðum þegnum þessa lands. Síðasta birtingarmynd þessa var þegar yfirvöld brugðust þeirri skyldu sinni að tryggja órofna lögboðna sjúkratryggingu landsmanna 1. september 2022.
Ekki hefur verið samið um mikilvæga og nauðsynlega heilbrigðisþjónustu sem sjálfstætt starfandi læknar veita frá því síðasti samningur var gerður árið 2013 og rann hann út 31.12.2018. Samninganefnd lækna hefur ekki fundið neinn samningsvilja hjá viðsemjendum sínum síðan þá.
Vegna þessa hefur hluti sjálfstætt starfandi lækna og læknastöðva þegar í dag hætt að senda rafræna reikninga til Sjúkratrygginga Íslands og ljóst er að fleiri munu fylgja í kjölfarið.
Sjálfstætt starfandi læknar munu hér eftir sem hingað til kappkosta að veita bestu mögulegu heilbrigðisþjónustu og verða áfram til staðar fyrir sína skjólstæðinga. Það er von sjálfstætt starfandi lækna að stjórnvöld bregðist skjótt við og sýni í verki að þeim sé annt um að landsmenn njóti áfram lögboðinna sjúkratrygginga og jafnræðis hvað varðar aðgengi að heilbrigðisþjónustu.“