Lenya Rún Taha Karim, varaþingmaður Pírata, sagði á Twitter í gær að mikilvægt væri að standa vörð um félagsstarfið sem sérverslunin Nexus býður upp á.
Grínaðist hún þá með að Nexus yrði sett á fjárlög.
Fólk brást vel við í athugasemdunum og nokkrir sögðu að starfsfólk Nexus og verslunin sjálf hafi hjálpað þeim mikið í gegnum tíðina.
Nexus sérhæfir sig í sölu á myndasögum, myndefni, borðspilum, leikjum og fleira efni. Verslunin hagnaðist um 33,1 milljón árið 2020 sem er methagnaður, en til samanburðar hefur afkoma félagsins ekki farið yfir 4 milljónir frá árinu 2015, eins og fram kemur í Viðskiptablaðinu.
Lenya segir að verslunin hafi hjálpað fólki sem annars hefur átt erfitt með að finna vettvang fyrir áhugamál sín. „Ég held að það þurfi að standa vörð um þessa búð og félagsstarfið sem búðin heldur utan um,“ segir Lenya í samtali við mbl.is
„Ég fæ alltaf mjög góða þjónustu þegar ég fer þangað og eins og þú sérð í svörunum við tístinu mínu þá hefur fólk almennt góða reynslu af búðinni og starfsfólkinu þar.“
Lenya segir þá vert að skoða það hvort verslunin geti sótt um styrki vegna félagsstarfsins sem hún rekur og vitnar þar í spilakvöldin og mótin sem Nexus hefur haldið í gegnum tíðina. „Ég held að það sé alveg eftirspurn eftir því að stækka félagsstarfið og sjá til þess að það deyi ekki út.“
Gísli Einarsson, eigandi Nexus, segir að verslunin hafi frá upphafi rekið spilaðstöðu samhliða búðinni í þeim tilgangi að búa til stemningu í gegnum spilin, kynnast nýjum spilurum og hjálpa fólki að stunda áhugmál sín.
Viðburðirnir sem Nexus stendur fyrir eru meðal annars Ókeypis myndasögudagurinn, spilamótin, og Midgard-hátíðin, en þeir tengjast allir versluninni á einn eða annan hátt.
„Við erum að fara að bæta við starfsmanni til að hafa umsjón með spilasalnum, þá veita meiri þjónustu, halda utan um mót og skipuleggja,“ segir Gísli.
Gísli segir að þrátt fyrir methagnað 2020 eigi smásala almennt undir högg að sækja í dag vegna netsölu og sjálfsafgreiðslu. „Það þurfa allir að vera með netverslun í dag en okkar aðaláhersla er á sjálfa verslunina, verslunarupplifunina og að fólk geti fengið aðgang, bæði að vörunum og að fólki með sérþekkingu á vörunum“ segir Gísli.
Nexus Noobs er skipulagt félagsstarf sem miðar að því að ná til einstaklinga sem eru félagslega einangraðir og koma þeim í sambandi við fleiri aðila með sömu áhugamál.
Félagsstarfið er samvinnuverkefni milli sálfræðistofunnar Sentiu og Nexus og heldur námskeið ætluð börnum, unglingum og fjölskyldum sem hafa áhuga á að læra allt um hlutverkaspil, kortaspil, herkænskuspil, myndasögur og fleira.
Soffía Elín sálfræðingur átti hugmyndina að verkefninu en Gísli segir það mjög vinsælt og að færri komist að heldur en vilja, en starfsemin lagðist tímabundið af í kórónuveirufaraldrinum.