Reiðubúin til viðræðna

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Unnur Karen

Það stendur ekki á ríkisvaldinu að hefja samtöl fyrir komandi kjaraviðræður, ef opinberu félögin eru einhuga um þá ósk, að sögn Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, tekur í sama streng og kveðst opinn fyrir því að hefja samtöl um grundvöll nýrra kjarasamninga nú þegar.

Forsvarsmenn sveitarfélaganna virðast vera sama sinnis. „Við erum í stöðugu samtali við okkar viðsemjendur þannig að auðvitað ræðum við við þá þegar þeir óska eftir því að tala við okkur,“ segir Inga Rún Ólafsdóttir, formaður samninganefndar sveitarfélaganna.

Friðrik Jónsson, formaður BHM, hefur lýst því yfir að bandalagið vilji taka af skarið og hefja kjaraviðræður við atvinnulífið og stjórnvöld strax. „Við erum auðvitað búin að undirbúa þessar samningaviðræður með sérstökum fundum í þjóðhagsráði, sem hafa verið töluvert margir á þessu ári og því síðasta, til að búa í haginn fyrir kjarasamninga,“ sagði Katrín þegar þetta var borið undir hana í gær.

Hún benti á að kjarasamningar opinberra starfsmanna losnuðu ekki fyrr en með vorinu. Gott væri að undirbúningsvinna hæfist áður en að því kæmi.

„Ég tek eftir því að það hefur verið gefið umboð til viðræðna og við tökum því fagnandi ef við getum hjálpað til við að tryggja að samningar verði ekki látnir renna út og langur tími líði þar til þeir verða endurnýjaðir,“ sagði Bjarni. Inga Rún segir undirbúning fyrir komandi viðræður á fullum dampi. 

Sjá nánar um málið í Morgunblaðinu á bls. 10 í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert