Saga hausarans í Bakka

„Mér finnst gaman að ferðast og hanga með fólki í …
„Mér finnst gaman að ferðast og hanga með fólki í öðrum löndum í þess umhverfi og á þess máta,“ segir Vincent Gísli Pálsson, húðflúrlistamaður til tveggja áratuga sem kom við í Tønsberg í Noregi áður en hann hélt för sinni áfram til Danmerkur og Skotlands í heimsóknir og flúr. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„En hvað segir mamma þín um þetta allt?“ „Bara fínt, ég tattóveraði hana líka,“ svarar Vincent Gísli Pálsson spurningu blaðamanns um feril hans sem annálaðs húðflúrmeistara í Skandinavíu. Vincent, sem eitt sinn vann á hausunarvélinni í saltfiskverkuninni Bakka í Ólafsvík og er breskur í föðurætt, íslenskur í hina áttina, hefur víða komið við í flúrinu.

Hann tók fyrstu skrefin í leiðsögn undir handleiðslu Sigga á húðflúrstofunni Fáfni en hefur síðan átt viðdvöl á flúrstofum á borð við Karma í Haugesund í Noregi, ekki ómerkari stofu en Enter the Dragon í Kaupmannahöfn og Studio Instinct í Stavanger svo aðeins fátt sé tínt til.

Um miðjan ágúst heimsótti Vincent blaðamanninn sem hér skrifar til Tønsberg í Noregi og til þess að tengja viðtalið blekfræðum hans órofa böndum flúraði hann allt bak ritara þessara lína, „full back“ eins og það heitir á fagmálinu. Verkinu er þó ekki lokið, aðeins tveimur dögum af fjórum.

Flúrar allt fríhendis

Við klárum á haustdögum, för Vincents var heitið áfram til Danmerkur og þaðan áfram til Skotlands í heimsókn til vina og kunningja auk þess að bregða nálinni á hörund viðskiptavina en Vincent starfar nú einkum sem farandlistamaður. Hann getur starfað hvar sem er, þarfnast aðeins nálarinnar, bleksins og myndlistargáfu sinnar, en þessi tæplega fimmtugi listamaður gerir öll sín flúr fríhendis og ferst vel úr hendi.

„Situr karl við svarta iðju./Sýður í afli stála teinn,“ orti …
„Situr karl við svarta iðju./Sýður í afli stála teinn,“ orti Grímur Thomsen um sverðasmiðinn í samnefndu ljóði. Vincent Gísli Pálsson bregður nál sinni fimlega á bak blaðamanns á meðan við ræðum forvitnilegt lífshlaup hausarans í Bakka. Ljósmynd/Selma Johanne Bahner

Móðirin flúraða, er getið var í upphafi viðtals, er Valva Gísladóttir, myndlistarkona búsett í Noregi, dóttir Gísla Ferdinandssonar skókaupmanns sem gerir Vincent þar með að barnabarni kaupmannsins. Faðir Vincents er Paul Richardsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Ferðaþjónustu bænda.

„Mamma spilaði á þverflautu og ég hlustaði á hana spila öll mín uppvaxtarár, það varð til þess að síðar varð ég mikill aðdáandi [hljómsveitarinnar] Jethro Tull,“ útskýrir Vincent en á þeim vettvangi varð Ian Anderson söngvari þekktur af flautuleik sínum á tónleikum og má rifja upp ágæta tónleika sveitarinnar á Akranesi í september 1992.

Þýddi Hrafninn og myndir Þráins

„Ég fæddist á Landspítalanum í Reykjavík og bjó í Reykjavík fyrstu árin þar til ég fór til London þegar ég var krakki. Við bjuggum á móti æfingahúsnæðinu hjá [hljómsveitinni] Queen í East End. Svo bjó ég úti um allt land á Íslandi, á Skagnesi við Vík í Mýrdal, í Ólafsvík, á Akureyri, Dalvík og Kópaskeri og mörgum fleiri stöðum. Þú getur ekkert verið að spyrja mig út í einhverjar dagsetningar eða ártöl, ég man ekkert svoleiðis, ég veit varla hvað mamma er gömul,“ segir Vincent og hlær innilega.

Fá takmörk eru fyrir því sem Vincent fæst við í …
Fá takmörk eru fyrir því sem Vincent fæst við í ranni myndlistargyðjunnar. Auk húðflúrs, sem eru hans ær og kýr, málar hann málverk, vinnur með þrívídd og hannar dreifimiða, auglýsingaborða, aðgangsarmbönd fyrir tónlistar- og aðrar hátíðir og býr meira að segja til tónlist. Ljósmynd/Aðsend

„Pabbi þýddi fullt af íslenskum kvikmyndum yfir á ensku, til dæmis Hrafninn flýgur og myndir Þráins Bertelssonar, Hrafn Gunnlaugsson og Þráinn voru gestkomendur á okkar heimili oftar en einu sinni og oftar en tvisvar,“ segir Vincent frá.

Hann gekk í Ísaksskóla og á unglingsárum hófst fjölbreyttur starfsferill, Ferskar kjötvörur, vertíðir í Ólafsvík, Hagkaup í Skeifunni og listinn er langur. Mjög langur. „Ólafsvíkurárin voru til dæmis mikið áfengi og mikil geðveiki en maður vann eins og skepna. Ég gekk í flest störf í Bakka sem var gríðarlega mónótónísk vinna, það er erfitt að vera stoltur af því sem þú ert að gera, þetta er eins og að vinna í verksmiðju. Ég hugsaði með mér til að peppa mig upp hvernig væri að vinna erfiðasta starfið þarna og vera góður í því,“ segir Vincent.

Hjó af þeim hausinn með sveðju

Kveður hann hausunarvélina ekki beinlínis hafa verið draumastarfið enda töluvert frábrugðið því að bera nálina að húð viðskiptavina í flúrinu. „Það var hundleiðinlegt að hausa minni fiskana, þú stingur þeim bara inn í vél, þarft bara að passa þig á því að stinga ekki hendinni inn í vélina og saga af þér fingurna, en stærri fiskarnir voru mun skemmtilegri, maður hjó af þeim hausinn með eins konar sveðju, það gat verið fjör,“ segir Vincent og glottir við tönn.

Löngu horfin æskuár á Skagnesi við Vík í Mýrdal. Vincent …
Löngu horfin æskuár á Skagnesi við Vík í Mýrdal. Vincent hefur búið víða um land og eins víða erlendis, London, Kaupmannahöfn og ýmsir bæir í Noregi hafa verið hans heimavellir um dagana. Ljósmynd/Aðsend

Hvað með nú tuttugu ára langan húðflúrferil Vincents, hvernig kom þetta til? „Ég var að vinna með stál þegar ég var í Ferskum kjötvörum í gamla daga, ég var úrbeiningarmaður þar. Þá pantaði ég húðflúrbyssur gegnum tímaritið Guns & Ammo. Á þessum tíma voru engin húðflúrblöð og ég pantaði frá Huck & Spaulding og trúðu mér það er nafn sem allir „old school“-tattóverarar kannast við,“ segir Vincent frá.

Hann steig fyrstu skref húðlistarinnar með því að æfa sig á vinum sínum. „Ég spurði Helga tattú [Helga Aðalsteinsson heitinn] hvort hann vildi kenna mér, hann seldi mér einhverjar vélar, en hann vildi auðvitað fá greitt fyrir kennslu og ég átti engan pening á þessum tíma. Þannig að Siggi í Fáfni byrjaði að kenna mér. Hann sýndi mér hvernig hann gerði þetta og mér fannst þetta mjög spennandi tími, leið eins og barni í nammibúð,“ segir Vincent.

Sveitungi Haraldar hárfagra

Kennarinn hafi verið svo ánægður með nemanda sinn að hann treysti Vincent til að flúra handlegg hans. „Ég lærði heilmikið hjá honum og fór svo til Noregs. Var þar meðal annars á stofunni Karma í Haugesund. Ég labbaði inn á þá stofu á hverjum degi með alls konar teikningar og sýndi þeim hin og þessi verk sem þeim þóttu ágæt og þar kom að einn daginn báðu þeir mig að mála kjallarann þar sem þeir bjuggu til nálarnar. Og ég átti að mála hann svartan,“ segir Vincent.

Ungur og blankur listamaður tók til við málningarvinnuna. „Þeir létu mig hafa pening fyrir einhverju að éta þegar ég var svangur og svo var ég bara að mála dögum saman. Þarna var fullt af leiðslum úti um allt og þetta var mikil vinna,“ rifjar hausarinn í Bakka upp. Að verki loknu hafi eigandi stofunnar, Øyvind Sander, komið niður með úðabrúsa sem innihélt útfjólublátt lakk.

„Ég er búinn að berjast við mannslíkamann lengi og hann …
„Ég er búinn að berjast við mannslíkamann lengi og hann er flókinn. Mér finnst gaman að leira og þetta er eins og að leira, bara digital,“ segir Vincent. Ljósmynd/Aðsend

„Hann bað mig að halda tveimur glerplötum upp við vegginn og spreyjaði á milli þeirra, svo sneri ég plötunum eftir því sem hann sagði og fyrr en varði var hann búinn að spreyja fullkomna stjörnu á vegginn,“ segir Vincent af listsköpun þeirra flúraranna í Haugesund, bænum þar sem talið er að sjálfur Haraldur hárfagri hafi verið lagður til hinstu hvílu fyrir rúmum þúsund árum.

Þolir ekki símtöl

Vincent lauk svo við að skreyta kjallarann með þúsundum hvítra punkta, eljuverki sem flestum málarameisturum hrysi líkast til hugur við. „Ég er búinn að vera mjög sósíal gegnum árin, hef umgengist fjölda fólks og eðlilega hefur verið mikið djamm. En þetta er allt búið núna. Það sem ég þarf að gera núna er að vera „single-minded“ og fókuseraður,“ segir Vincent og gengur einbeitingarhyggja þessi svo langt að hann þolir ekki að hringt sé í hann.

„Ég vil að fólk sendi mér skilaboð, það hef ég margsinnis tekið fram,“ segir hann, „ég upplifi það einfaldlega þannig að verið sé að ræna tíma mínum þegar einhver hringir og ég er neyddur til að fara að tala við viðkomandi. Ég hef engan áhuga á því, ég vil að fólk skrifi mér skilaboð sem ég get þá svarað þegar mér hentar,“ segir flúrarinn ákveðinn.

Vincent helgar myndlistinni nánast allan tíma sinn og eru fæst …
Vincent helgar myndlistinni nánast allan tíma sinn og eru fæst form hennar, ef nokkur, honum framandi. Ljósmynd/Aðsend

Auk símaviðhorfsins tekur Vincent alls ekki við hvaða viðskiptavinum sem er, ekki er sjálfgefið að fá að leggjast undir nálar hans. „Já, ég vísa fólki frá mér,“ játar hann hiklaust, „sérstaklega ef mér finnst að einhver annar listamaður geti gert eitthvað virkilega sniðugt með það sem viðkomandi er að biðja um. Mér finnst þá að ég ætti ekki að vera að taka vinnuna sem hann ætti í raun að hafa,“ heldur hann áfram.

Þriggja sekúndna reglan

Vincent hefur ekki áhuga á að fá of miklar smáatriðalýsingar frá væntanlegum viðskiptavinum. Hann kýs að fá grófar, allt að því óljósar, hugmyndir og útfæra smáatriðin í þeim sjálfur. „Maður vill geta bætt við seinna og farið dýpra og dýpra. Ef eitthvað virkar ekki fyrir mig bendi ég fólki á kollega mína sem væru heppilegri,“ segir flúrarinn og nefnir sem dæmi fólk sem biður um mikil og fíngerð smáatriði í flúr sín. Í því samhengi nefnir Vincent þriggja sekúndna regluna. Út á hvað gengur hún?

„Ef þú getur ekki séð hvað þetta er á þremur sekúndum er það ekki gott tattú,“ svarar Vincent blákalt og nefnir annað viðmið sem er sú þumalputtaregla að ósjónskertur maður eigi að geta áttað sig á húðflúrmynd yfir venjulega götu.

Eitt mörg þúsund verka Vincents á tuttugu ára ferli. Hann …
Eitt mörg þúsund verka Vincents á tuttugu ára ferli. Hann vill helst ekki fá hugmyndir í of miklum smáatriðum frá viðskiptavinum sínum, kýs heldur grófar hugmyndir sem hann útfærir svo eftir því sem andinn blæs honum í brjóst. Ljósmynd/Aðsend


Talið berst að mismunandi viðskiptavinum og mismunandi hegðun. Vincent hefur rekið nálar sínar í nánast alla flóru mannlegs lífs, fólk með raskanir á borð við ofvirkni með athyglisbresti, málglatt fólk, þunglynt fólk, fólk í vímu, edrú fólk og hér mætti telja upp mun fleira. Hann kýs helst að fá að starfa í friði og kveðst oftar en tölu verður á komið hafa þurft að segja viðskiptavinum sínum að mjög æskilegt væri ef þeir gætu beint athygli sinni að einhverju öðru en honum.

Vincent er ekki vel við að halda uppi samræðum á meðan hann vinnur. Auðvitað eru blaðaviðtöl kannski undantekningin sem sannar regluna en engu að síður var blaðamaður margsinnis hundskammaður í þessu viðtali. „Viltu horfa fram!“, „Ekki snúa hausnum!“, „Sko, ég er að flúra á þér bakið, ekki hreyfa hendurnar, það er sama hvaða líkamshluta þú hreyfir, það hreyfir bakið!“ er meðal þeirra leiðbeininga sem fengu að fjúka í þessu viðtali og blaðamaður gerði sitt besta til að hlýða listamanninum.

Verður hálfgerð hugleiðsla

„Ég reyni að biðja fólk að halda heilabúinu aktífu án þess að þurfa að deila því með mér. Til dæmis bara með því að horfa á eitthvað án þess að þurfa að útskýra af hverju það sé gott. Bara horfa á það,“ segir Vincent. „Þegar ég dett inn í einbeitinguna verður hún allt, þá verð ég að vera eins laus við utanaðkomandi áhrif og hægt er. Þetta er hálfgerð hugleiðsla, ég loka mig af frá heiminum og dett inn í eitthvert „creative space“. Það skilja sumir, en ekki nærri því allir,“ segir Vincent af festu hins lífsreynda manns.

Vincent býr einnig til tónlist og þarf ekki burðugri grip en spjaldtölvu til. Dundaði hann sér í 17 klukkustunda lestarferð frá Norður-Noregi alla leið suður til Tønsberg við að setja saman raftónlist sem blaðamaður fær að heyra nokkur dæmi um. Málverk eru einnig snar þáttur í listsköpun hans og líður varla sá dagurinn að hann skapi ekki eitthvað á striga. Nokkrar sýningar á hann auk þess að baki á þeim vettvangi. Þá má finna vegg nokkurn í Barcelona á Spáni sem Vincent skreytti ásamt þarlendum grafít-listamönnum.

Stund milli stríða í Tønsberg. Vincent dundaði sér við að …
Stund milli stríða í Tønsberg. Vincent dundaði sér við að semja tónlist meðan á 17 klukkustunda lestarferð farandlistamannsins frá Norður-Noregi suður til Tønsberg stóð. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Ég er búinn að berjast við mannslíkamann lengi, ég er að vinna í því að reyna að skapa hann almennilega í þrívídd,“ segir Vincent af nýjustu hugðarefnum sínum, „og þá ekki eina manneskju heldur margar. Tæknin gerir það að verkum að ég get þjálfað sömu aðferðir þar til þær verða vani. Þetta opnar fleiri möguleika, svo sem þrívíddarprentaðar styttur eða að einfalda yfirborð sem nota má í teikningar fyrir teiknimyndir eða sjónvarpsefni. En ég vinn við flúr, allt hitt er bara eitthvað til að nördast með þegar ég hef tíma,“ segir Vincent og bros leikur um varirnar.

Þarf að brynja mig með þolinmæði

Við færum okkur aftur í blekið og húðina. Vincent segist mikið til finna sína viðskiptavini þótt margir leiti auðvitað til hans. „Ég finn fólk sem er eins og ég eða ég passa vel við. Svo fer ég í þann hóp og reyni að fá þau verkefni sem ég hef áhuga á að vinna og ég brenn fyrir. Ég tattóvera einhvern og þá langar kannski vin hans líka og þannig gengur þetta. Núna þarf ég hins vegar að brynja mig með þolinmæði því ég er að fara til Kaupmannahafnar að gera smátattú í viku,“ segir Vincent og hlær, „ég þarf að hegða mér,“ bætir hann glottandi við.

„Mér finnst gaman að ferðast og hanga með fólki í öðrum löndum í þess umhverfi og á þess máta. Hanga og mála eða búa eitthvað til,“ segir Vincent sem sér fram á að verja því sem hann á eftir ólifað í ranni listagyðjunnar. „Mig langar kannski að komast aðeins nær venjulegu starfi sem býður upp á venjulegan vinnutíma, eitthvert „design“-fyrirtæki eða eitthvað svoleiðis sem býður upp á góða vinnuaðstöðu en leyfir mér þó að leika mér líka,“ heldur hann áfram og játar að húðflúrið reyni býsna mikið á skrokkinn, ekki síst er árunum fjölgar hægt en örugglega.

Heimili Vincents í Norður-Noregi minnir einna helst á framúrstefnulegt listasafn. …
Heimili Vincents í Norður-Noregi minnir einna helst á framúrstefnulegt listasafn. „Ég vinn við flúr, allt hitt er bara eitthvað til að nördast með þegar ég hef tíma,“ segir hann þó. Ljósmynd/Aðsend

Undir lokin er fróðlegt að heyra álit Vincents á þróun húðflúrbransans, að minnsta kosti 5.000 ára gamallar listgreinar sem enn þann dag í dag er þó svo lífseig að tólf prósent Evrópubúa ganga með húðflúr samkvæmt upplýsingum norska dagblaðsins Aftenposten frá því í fyrra.

„Viðhorf viðskiptavina gagnvart flúrlistamönnum hefur breyst svo mikið,“ svarar Vincent. „Nú labbar fólk inn á stofur og segir „ég vil fá þetta og svona mynd“, svona var þetta ekki. Þegar fólk kemur inn á stofu nú til dags hefur það yfirleitt ekki unnið neina rannsóknarvinnu, það spyr bara „hver er laus?“. Við þurfum að skila af okkur góðri afurð, ef fólk veit ekki akkúrat hvað það vill þá viljum við hjálpa því,“ heldur hann áfram.

Er ekkert nýtt undir nálinni?

„Ónefndur flúrari heima sagði við mig „ekkert er nýtt undir nálinni“ en ég er ekki sammála því og þegar maður fær fólk til að endurskoða hugmynd á borð við þessa verður það góður dagur,“ segir Vincent, kominn djúpt í tilvistarspeki húðflúrheimsins.

„Annað sem ég skil ekki er þegar viðskiptavinir eru að setja tímamörk á flúrara, koma til dæmis inn á stofu og segja „ég verð að vera búinn klukkan fjögur“ eða spyrja „hvað tekur þetta langan tíma?“. Þetta er algjörlega öfugur hugsunarháttur. Þú vilt einmitt gefa listamanninum tíma og alls ekki gera hann stressaðan,“ segir Vincent af rökfestu, „ef ég fer í flúr geri ég engin önnur plön þann dag.

Við viljum ekkert endilega fá fullunnar hugmyndir, oft er gott að hafa fá orð til að lýsa því sem þú vilt. Ég get samt auðvitað ekki talað fyrir alla, þetta er bara það sem mér finnst,“ segir Vincent Gísli Pálsson sposkur á svip og lýkur þar sögu hausarans í Bakka.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert