Neyðarlínunni barst tilkynning um ellefuleytið í gærkvöldi um að það væri verið að flytja hross úr hesthúsi og fóru lögreglumenn í Borgarnesi á staðinn.
Þetta staðfestir Ásmundur Kr. Ásmundsson aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglu á Vesturlandi í samtali við mbl.is.
Í gær var fjallað um slæma meðferð hestastóðs í Borgarbyggð sem vakið hefur óhug meðal íbúa á svæðinu. Að sögn Steinunnar Árnadóttur, einnar þeirra sem er með hesta á húsi í sama hesthúsahverfi, eru hestarnir flestir vannærðir og lokaðir inni í hesthúsi sem rúmi ekki stóðið.
Að sögn Ásmundar er hesthúsið sem lögreglumenn heimsóttu í gær líklega það sem um ræðir.
Ásmundur segir lögreglu hafa haft samband við dýraeftirlitsmann í Borgarfirði og MAST en að engin kæra hafi borist lögreglu um málið og ekkert sé lögreglumál í gangi enda hafi ekkert annað átt sér stað en það að verið var að flytja hesta.
„Við fáum endalaus mál þar sem tilkynnt er kannski um illa meðferð á hundum og köttum og þá náttúrulega skoðum við allt en ég get staðfest það að lögregla fór á staðinn í gærkvöldi um ellefuleytið. Tilkynnt var um að það væri verið að flytja hesta og það var sannarlega verið að flytja hesta og MAST er inni í því öllu,“ segir Ásmundur.
Í samtali við mbl.is sagði héraðsdýralæknir hjá Matvælastofnun stofnunina ekki geta tjáð sig um einstaka mál.