Minna en helmingur landsmanna er hlynntur sölu bjórs á landsleikjum Íslands í knattspyrnu á Laugardalsvelli og um þriðjungur er andvígur henni. Karlar eru líklegri en konur að styðja áfengissöluna og er yngra fólk sömuleiðis hlynntara sölunni en það eldra.
Alls eru 43% hlynnt sölu bjórs á Laugardalsvelli, samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup. Þar kemur einnig fram að íbúar höfuðborgarsvæðisins séu hlynntari sölunni en íbúar landsbyggðarinnar.
Þá höfðu tekjur einnig áhrif á afstöðu fólks en einn af hverjum þremur í lægsta tekjuhópnum er hlynntur sölu bjórs á Laugardalsvelli á meðan tveir af hverjum þremur í hæsta tekjuhópnum eru það.
Um 57% fólks undir fertugu er hlynnt sölu bjórs á Laugardalsvelli á móti rúmlega fjórðungi fólks yfir sextugu.
Þá virðist landinn mótfallnari sölu léttvíns og bjórs á skíðasvæðum, heldur en á landsleikjum í fótbolta, en samkvæmt Þjóðarpúlsinum eru einungis um 33% hlynntir slíkri áfengissölu og 41% andvígir. Um 27% landsmanna eru hvorki hlynntir né andvígir.
Breytur á borð við kyn, aldur og búsetu virtust einnig hafa svipuð áhrif á afstöðu fólks gagnvart áfengissölu á skíðasvæðum og bjórsölu á landsleikjum.
Ríflega fjórir af hverjum tíu körlum eru hlynntir sölu léttvíns og bjórs á skíðasvæðum á móti tæplega fjórðungi kvenna. Þá eru ríflega fjórir af hverjum tíu undir fertugu hlynntir sölu áfengis á skíðasvæðum á móti rúmlega fimmtungi fólks yfir sextugu.
Kjósendur Viðreisnar og Sjálfstæðisflokksins voru almennt hlynntari sölu áfengis á þessum svæðum en aðrir. Þá voru kjósendur Vinstri græn og Flokks fólksins mótfallnastir áfengissölunni.