Á leiðinni út þegar reykurinn fyllti stofuna

Spjaldtölvan sem um ræðir
Spjaldtölvan sem um ræðir Ljósmynd/Elva Hrönn

Ekki mátti miklu muna að illa færi þegar að spjaldtölva fjölskyldu á Akureyri bræddi úr sér með þeim afleiðingum að reykmökkur og eldglæringar stóðu út úr tækinu. Á örskotsstund fylltist stofan af reyk og urðu drengir á efri hæð hússins að koma sér út í flýti.

Með skjótum viðbrögðum tókst þó móðurinni á heimilinu að ná tökum á aðstæðum með því að vefja eldvarnarteppi um tækið og stöðva þannig þá atburðarás sem hefði getað endað mun verr. Í samtali við mbl.is segir hún frásögnina vera víti til varnaðar og hvetur hún aðra til að huga betur að eldvörnum á heimilum sínum.

Ljósmynd/Elva Hrönn

Heyrði hvissandi hljóð úr stofunni

Elva Hrönn Smáradóttir, íbúi á Akureyri, var komin á skó og á leiðinni út af heimili sínu til að sækja dóttur sína á leikskóla, þegar hún heyrði lágt hvissandi hljóð koma úr stofunni.

Til mikillar hamingju ákvað hún að snúa við til að athuga málið og sér þá hvernig reykmökkur og eldglæringar standa út úr spjaldtölvu fjölskyldunnar sem var í hleðslu uppi á borði. Sama spjaldtölva og fjögurra ára gömul dóttir hennar hafði verið að leika sér í um morguninn.

Ljósmynd/Elva Hrönn

Fyrstu viðbrögð Elvu Hrannar var að öskra á son sinn og vini hans, sem voru staddir á efri hæð hússins, og skipa þeim að koma sér út. Eftir augnabliks umhugsun mundi hún síðan eftir eldvarnarteppi og slökkvitæki sem fjölskyldan hafði fengið í jólagjöf síðustu jól. Þar næst tókst henni að vefja raftækið inn í teppi og rífa það úr hleðslu. 

Hún segir reykinn hafa verið fljótan að dreifast út um allt húsið. Þurfti því að reykræsta með viftum og færa sófa og önnur húsgögn út á pall eftir á.

Atburðarásin fljót

Hún segir það mikla mildi að ekki hafi farið verr og á hún erfitt með að ímynda sér hvað hefði gerst ef hún hefði ákveðið að leggja af stað aðeins fyrr til að sækja á leikskólann. Hún hafi sjálf labbað fram hjá spjaldtölvunni á leiðinni út og þá virtist allt hafa verið í himnalagi. 

Elva Hrönn hvetur því fólk til að huga betur að raftækjum í hleðslu og bendir á að margir geymi til að mynda síma í hleðslu á nóttinni undir koddum sínum.



Ljósmynd/Elva Hrönn
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert