Ekki mikil reynsla á bóluefni við apabólu

Þeir 1.400 skammtar sem Ísland fær í bili af bóluefni við apabólu eru komnir til landsins og verða nýttir bráðlega. 

Þetta segir Guðrún Aspelund, nýskipaður sóttvarnalæknir. Hún er gestur Karítasar Ríkharðsdóttur í Dagmálum þar sem hún ræðir ferilinn, nýja starfið og verkefnin fram undan. 

Guðrún segir að hlutfallslega fái Ísland marga skammta í gegnum Evrópusamstarf um bóluefni. 

Skyndileg dreifing ekki útskýrð

Nokkuð mörg ár eru síðan apabóla greindist fyrst og ekki þurfti að grípa til þess að þróa nýtt bóluefni við veirunni, líkt og gert var við kórónuveirufaraldrinum.

Sjúkdómurinn er landlægur í einstaka Afríkuríkjum og ekki liggur fyrir hvað olli skyndilegum vexti í dreifingu en að sögn Guðrúnar kemur það ekki til vegna stökkbreytingar.

Bóluefnið sem notað er hafði áður verið gefið við bólusótt og hafði einnig markaðsleyfi fyrir apabólu í Bandaríkjunum en ekki Evrópu. Núna hefur verið gefið út markaðsleyfi fyrir efninu við apabólu í Evrópu en Guðrún segir að ekki sé komin mikil reynsla á það við apabólu.

Þáttinn með Guðrúnu Aspelund má sjá í heild sinni hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka