Folald og hryssa enn lokuð í stíu

Steinunn segir hryssuna og folald hennar vera lokuð inn í …
Steinunn segir hryssuna og folald hennar vera lokuð inn í stíu þar sem dagsbirtu nýtur ekki. Ljósmynd/Steinunn Árnadóttir

Steinunn Árnadóttir, sem greindi í gær frá illri meðferð á hest­um sem voru til húsa í hest­húsa­hverfi í grennd við Borgarnes, segir hryssu og lítið folald hennar enn lokað inni í stíu þar sem dagsbirtu nýtur ekki.

Hún deildi myndum af þeim í morgun á Facebook-síðu sinni og sagði dýrin hafa verið í stíunni síðan í maí og að ekki hefði verið gripið til neinna aðgerða þrátt fyrir tilkynningar.

Í samtali við mbl.is segir Steinunn þó halda að nú sé eitthvað í gangi og vonandi sé verið að bjarga hryssunni og folaldinu og koma þeim í öruggar aðstæður.

„Lögreglan kom hingað áðan. Þannig að það er eitthvað í gangi. En ég hef ekki fengið frekari fréttir,“ segir Steinunn.

Lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á Vesturlandi segir þó í samtali við mbl.is að lögreglan hafi einungis verið að kanna ástandið en að annars sé málið á borði MAST.

Hestasamfélagið lamað

Steinunn segir hestasamfélagið lamað vegna málsins, bæði vegna aðgerðaleysisins og vegna þess að ekkert sé búið að gerast.

„Eins og með þetta trippi sem var hreinlega stolið úr aðstæðum og sett út í kulda og rigningu. Þau voru fjarlægð úr húsunum en við vorum að vonast til að þeim yrði bjargað. Þetta er ekki björgun.“

Aðspurð segir Steinunn eigendur hrossanna ekki hafa sett sig í samband við hana en að fyrrverandi eigendur hafi haft samband og spurt hvað sé hægt að gera til að ná skepnunum til baka.

Verkferlar verði lagaðir

Þá segist Steinunn hafa fengið símtal frá aðstoðarmanni ráðherra sem sagði að það yrði farið í að laga þessa verkferla. „Þannig þessu verður rækilega stokkað upp,“ segir Steinunn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert