Ökumaður flutningabíls sem ók með of háan farm sem rakst á brú á Reykjanesbraut til móts við Stekkjarbakka fyrir hádegi í dag, verður kærður vegna málsins. Þetta staðfestir Árni Friðleifsson, aðalvarðstjóri hjá umferðardeild lögreglunnar, í samtali við mbl.is.
Flutningabíllinn var að flytja einhvers konar gámahýsi sem splundraðist þegar það rakst á brúna og dreifðist brak úr því yfir veginn. Atvikið átti sér stað klukkan rétt rúmlega tíu í morgun.
Tryggingafélag viðkomandi ökutækis var kallað á vettvang og hreinsun stendur enn yfir. Lögreglan hefur verið að stýra umferð á svæðinu, en tekist hefur að halda einni akrein opinni.
Engin slys urðu á fólki eða öðrum bílum, að sögn Árna, en hann gat ekki sagt til um hvort skemmdir hefðu orðið á brúnni.