Alþjóðlegur leiðtogafundur um Úkraínu fer fram á vegum Norðurlandaráðs í Reykjavík dagana 5. til 7. september næstkomandi.
Markmiðið með fundinum er meðal annars að fá nýjustu fréttir af stöðu mála í Úkraínu en einnig af baráttu stjórnarandstæðinga í Rússlandi og Hvíta-Rússlandi og ræða saman um það sem er framundan. Þá verður rætt hvernig Eystrasaltsríkin og Norðurlönd gætu stuðlað að jákvæðri þróun til framtíðar á þessum slóðum. Eystrasaltsþingið stendur að fundinum ásamt Norðurlandaráði.
Meðal þátttakenda á verða þær Lesia Vasylenko, sem situr á þingi Úkraínu, og Elina-Alem Kent, blaðamaður úkraínsku fréttaveitunnar Kyiv Independent.
Frá Rússlandi kemur Jevgenia Kara-Murza sem starfar fyrir Free Russia Foundation en eiginmaður hennar er stjórnarandstæðingurinn Vladimir Kara-Murza sem nú situr í fangelsi.
Meðal þátttakenda frá Hvíta-Rússlandi er Franak Viacorka, aðalráðgjafi Svetlönu Tichanovskaja sem er leiðtogi stjórnarandstæðinga.
Íslensku ráðherrarnir, Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra, taka einnig þátt í fundinum mánudaginn 5. september.
Erkki Tuomioja, forseti Norðurlandaráðs, segir jafnmikilvægt að styðja Úkraínu í varnarbaráttu sinni og viðhalda sambandi og styðja við þau sem leggjast gegn stríðsstefnu Rússlands og Hvíta-Rússlands.
„Staða lýðræðislegrar stjórnarandstöðu er þröng og fólk sem er andvígt stríðsstefnunni getur átt yfir höfði sér langa fangelsisdóma eða eitthvað þaðan af verra,“ er haft Tuomioja, á vef Norðurlandaráðs.