Fylgi Samfylkingarinnar eykst um nær tvö prósentustig á milli mánaða samkvæmt nýjum Þjóðarpúlsi Gallup sem birtur var í kvöld. Myndu um 15,5% þeirra sem svöruðu könnuninni kjósa flokkinn ef kosið væri til Alþingis í dag, en 15,6% sögðust myndu kjósa Framsóknarflokkinn.
Í tilkynningu frá Gallup kemur fram að fylgi annarra flokka breytist lítið á milli mánaða, en samkvæmt Þjóðarpúlsinum myndu 21,8% kjósa Sjálfstæðisflokkinn, en í júlí var fylgi hans um 22,1%. Þá myndu um 14,8% aðspurðra kjósa Pírata, en fylgi þeirra var 15% í júlí. Viðreisn og Vinstri Græn fá bæði 8,4% fylgi í könnuninni, en báðir flokkar fengu 8,6% í júlí.
Flokkur fólksins fær 5,6% og Sósíalistaflokkurinn um 5,1%. Þá styðja 4,6% Miðflokkinn samkvæmt Þjóðarpúlsinum. Í tilkynningu Gallup kemur fram að um 12% hafi ekki tekið afstöðu eða neitað að gefa hana upp, og að tæp 10% hafi sagt myndu skila auðu eða ekki kjósa ef kosið væri í dag. Þá kemur fram að tæp 49% þeirra sem taki afstöðu styðji ríkisstjórnina.
Niðurstöðurnar byggja á netkönnun sem Gallup gerði dagana 2. - 31. ágúst 2022. Heildarúrtaksstærð var 10.719 og þátttökuhlutfall var 48,9%. Vikmörk á fylgi við flokka eru 0,6-1,3%. Einstaklingar í úrtaki voru handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup.