Sýknaður af ákæru um nauðgun

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur.

Ungur karlmaður hefur verið sýknaður af ákæru um að hafa nauðgað ungri konu í febrúar árið 2019, en bæði voru þau þá undir lögaldri. Taldi dómurinn að ekki væri sannað yfir skynsamlegan vafa að maðurinn hafi gerst sekur um nauðgun, en meðal annars er bent á að unga konan hafi ekki getað fullyrt að brotið hafi verið gegn sér eða skýrt hvað gerðist umrætt kvöld.

Samkvæmt því sem fram kemur í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem birtur var fyrst í dag, er rakið að konan hafi verið á leið út í búð umrætt kvöld til að kaupa nesti fyrir skólann, en að svo hafi hún ekki komið heim og lét móðir hennar þá lögreglu vita. Hún og maðurinn hafi verið í samskiptum í gegnum Snapchat og ákveðið að hittast, en fram kemur í dóminum að þau hafi þekkst í um eitt ár og áður átt í kynferðislegu sambandi.

Hafi vinur hans, sem var eldri og kominn með bílpróf, komið og sótt konuna í búðina og þau svo farið öll saman í einbýlishús þar sem þau hafi meðal annars neytt áfengis. Deilt var um hvort kókaíns hafi verið neytt, en eftir það hafi verið farið í heitan pott.

Konan sagðist muna eftir að hafa farið upp úr pottinum og setið í sófa, en að mest megnis af kvöldinu og nóttinni væri „blackout“ eftir það. Hún hafi svo vaknað daginn eftir í öðru húsi þar sem maðurinn bjó ásamt fjölskyldu sinni. Hefði hún farið út og komið sér í burtu og síðar verið komið upp á neyðarmóttöku. Var konan meðal annars með sogblett á hálsi og far á vinstra læri, ásamt því að vera illt í hálsi og hendi. Hún mundi hins vegar ekki hvort þau hefðu stundað kynlíf umrætt kvöld, né sagðist hún muna hvort þau hefðu áður stundað kynlíf þegar þau voru að hittast.

Maðurinn neitaði í fyrstu skýrslutöku hjá lögreglu að hafa hitt konuna umrætt kvöld, en fyrir dómi hafði hann sambærilega sögu og konan að segja um hvernig þau hittust um kvöldið og hvað fór þá fram. Hann sagði hins vegar að þau hafi haft samræði síðar um kvöldið í tvígang, en að það hafi verið með hennar vilja. Milli 4 og 5 um nóttina hafi þau svo fengið far með skutlara heim til hans þar sem þau hafi farið að sofa.

Sagði maðurinn að um morguninn hafi þau kvatt hvort annað með faðmlagi og hann aftur farið að sofa. Síðar hafi hann heyrt af kærunni og orðið hissa og sár. Þau hafi rætt saman á Snapchat eftir þetta og sagði hann konuna ekki hafa viljað kæra. Útskýrði hann misræmi í framburði hjá lögreglu og fyrir dómi þannig að hann hafi verið hræddur og liðið óþægilega hjá lögreglunni og upplifað að verið væri að brjóta á honum og hann frosið. Þá teldi hann sig ekki hafa gert neitt rangt.

Í dóminum er meðal annars vísað í framburð vinar mannsins, sem var á bifreiðinni og var með þeim um kvöldið. Sagði hann að eftir pottinn og einhvern tíma í sófa í húsinu hefðu maðurinn og konan farið inn í herbergið hans og hann hefði leyft þeim að vera saman, enda taldi hann þau vera kærustupar.

Móðir konunnar greindi frá því að dóttir hennar hefði byrjað í neyslu árið áður og væri á þessum tíma nýbúin í meðferð. Sagði hún að síðustu ár hefðu verið dóttur sinni erfið, meðal annars þar sem hún væri með manninum í skóla. Sagði hún dóttur sína hafa beðið sig um að kæra ekki, en þar sem dóttirin hafi verið ósjálfráða þegar atvikið átti sér stað hafi hún tekið ákvörðun um að kæra.

Bróðir og móðir mannsins báru einnig vitni í málinu og sagðist bróðirinn hafa séð konuna koma út úr herberginu daginn eftir og þá hefði allt virst eðlilegt. Móðirin, sem sagðist hafa vaknað þegar þau komu heim en þó ekki áttað sig á að konan væri með í för, sagðist ekkert meira hafa heyrt umrædda nótt.

Tekin voru sýni úr sængurfatnaði, koddaveri og laki rúmsins sem fólkið hafði verið í. Niðurstöður þess voru að fundist hefði DNA-snið sem væri eins og DNA-snið mannsins, en annað DNA-snið hefði reynst í of litlum mæli til að hægt væri að samkenna það við einstakling.

Niðurstaða dómsins var að framburður konunnar væri óljós varðandi hvað hefði gerst, en trúverðugur „svo langt sem það nær.“ Þá hefðu þeir sem sáu konuna skömmu eftir að hún vaknaði borið um að hún virtist ekki undir neinum áhrifum auk þess sem hún taldi sig sjálf aðeins í meðallagi drukkna. Því liggi ekki ljóst fyrir af hverju hún muni atvik svo illa. Segir í dóminum að konan hafi ekki getað fullyrt um að brotið hafi verið gegn sér og muni atvik aðeins að litlu leyti. „Ekkert liggur fyrir í málinu sem staðfestir að hún hafi verið undir slíkum áhrifum áfengis eða lyfja að hún hafi verið í því ástandi að ákærði hafi getað notfært sér að hún gat ekki spornað við verknaðinum sökum ölvunar og svefndrunga,“ segir í dóminum.

Tekið er fram að þótt kókaín hafi greinst í þvagi hennar hafi það ekki greinst í blóði og því óvíst um áhrif þess á hana. Þá hafi skoðun á neyðarmóttöku staðfest að konan hafi átt samræði, en ekkert hafi fundist sem gæfi til kynna að það hafi verið gegn vilja hennar.

Telur dómurinn því að með neitun mannsins sé ekki hægt að sanna, svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, að hann hafi gerst sekur um nauðgun. Var maðurinn því sýknaður og var sakarkostnaður málsins felldur á ríkissjóð, samtals tæplega 3,5 milljónir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert