Þriðja hver kona lendir í áreitni eða ofbeldi á vinnustað

Edda Björk Þórðardóttir lektor við Háskóla Íslands er ábyrgðarhöfundur rannsóknarinnar.
Edda Björk Þórðardóttir lektor við Háskóla Íslands er ábyrgðarhöfundur rannsóknarinnar. Ljósmynd Háskóli Íslands/Kristinn Ingvarsson

Þriðjungur kvenna á Íslandi hefur orðið fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi á vinnustað einhvern tíma á lífsleiðinni. Þetta er samkvæmt niðurstöðum rannsóknar á vegum vísindamanna Háskóla Íslands.

Gögnin eru fengin úr viðamiklu rannsóknarverkefni er nefnist Áfallasaga kvenna, sem vísindamenn við Miðstöð í lýðheilsuvísindum við Háskóla Íslands standa að.

Þá sýnir rannsóknin að konur á opinberum vettvangi og í ferðaþjónustu séu í mestri hættu á kynferðislegri áreitni og ofbeldi á núverandi vinnustað sínum.

Rannsóknin, sem sagt er frá í The Lancet Public Health, byggist á svörum 15.799 kvenna á vinnufærum aldri sem svöruðu ítarlegum spurningalista, meðal annars um kynferðislega áreitni og ofbeldi í vinnuumhverfi þeirra og í ólíkum geirum atvinnulífsins.

Algengara á vinnustöðum með vaktafyrirkomulagi

Konur sem starfa á opinberum vettvangi, t.d. í sviðslistum, tónlist, blaðamennsku og stjórnmálum, og þær sem starfa í ferðaþjónustu, innan réttarvörslukerfisins, öryggisgeiranum og framleiðslu- og viðhaldsgeirum eru mest útsettar fyrir kynferðislegri áreitni eða ofbeldi á núverandi vinnustað.

Kynferðisleg áreitni og ofbeldi gagnvart konum reyndist jafnframt algengara á vinnustöðum með vaktafyrirkomulagi og óreglulegum og löngum vinnutíma en annars staðar.

„Konur sem vinna á slíkum stöðum eru líklegri til þess að vera einar að störfum með mögulegum gerendum og því engin vitni að áreitninni eða ofbeldinu. Að þessu þarf að huga þegar öryggi á vinnustöðum er til skoðunar,“ segir Edda Björk Þórðardóttir, lektor við Háskóla Íslands og ábyrgðarhöfundur rannsóknarinnar.

Hinsegin konur líklegri til að verða fyrir áreitni

 Þá sýna niðurstöður að hinsegin konur eru líklegri til þess að verða fyrir áreitni á vinnustað á lífsleiðinni en gagnkynhneigðar konur.

Rannsóknin leiðir jafnframt í ljós að yngri konur séu líklegri til þess að segja frá því að hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni á lífsleiðinni en þær sem eldri eru þrátt fyrir að hafa verið skemur á vinnumarkaði.

Ísland hefur um langt árabil verið í efsta sæti á lista Alþjóðaefnahagsráðsins yfir þau lönd þar sem kynjajafnrétti er mest og því eru niðurstöður þessarar rannsóknar einkar umhugsunarverðar. Aðstandendur rannsóknarinnar benda á að niðurstöðurnar sýni að þörf sé á frekari stefnumótun í samfélaginu sem miðar að því að auka öryggi kvenna á vinnustað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert