UN Women í sögulega herferð

Vettlingarnir fara í sölu í dag.
Vettlingarnir fara í sölu í dag. Ljósmynd/Anna Maggý

UN Women á Íslandi hefur í dag sölu á FO vettlingum en þetta er í áttunda sinn sem landsnefndin fer af stað í FO herferð og í þetta sinn í samstarfi við Sjóvá.

Segir í tilkynningu að FO herferðin sé flaggskip UN Women á Íslandi og að um 80 milljónir hafi safnast á þessum árum sem runnið hafa í að uppræta kynbundið ofbeldi á heimsvísu.

40 hinsegin einstaklingar sátu fyrir

Í ár verður varningurinn til styrktar hinsegin verkefnum UN Women um allan heim og voru því 40 hinsegin einstaklingar fengnir til að sitja fyrir á öllu FO herferðarefninu í ár sem andlit herferðarinnar.

40 hinsegin einstaklingar voru fengnir til að sitja fyrir.
40 hinsegin einstaklingar voru fengnir til að sitja fyrir. Samsett mynd

„Þátttaka þeirra er táknræn þar sem þau leggja sitt af mörkum til að vekja athygli á því bakslagi sem orðið hefur á heimsvísu, þar með talið á Íslandi og styðja þannig við þessa mikilvægu og sögulegu söfnun,“ segir í tilkynningunni.

Þá er tekið fram að þetta er í fyrsta sinn sem landsnefnd UNW, en þær eru tólf á heimsvísu, safnar í hinseginsjóð UN Women sem er hér um bil alveg tómur.

Meðal hinsegin verkefna UN Women er þjálfun heilbrigðisstarfsfólks í Líberíu svo þau geti veitt hinsegin fólki viðunandi þjónustu, rekstur menningaseturs fyrir konur og hinsegin fólk í Líbanon og fjölþætt verkefni í Georgíu sem miðar að því að uppræta ofbeldi gegn hinsegin fólki.

Hinsegin einstaklingar eru andlit herferðarinnar.
Hinsegin einstaklingar eru andlit herferðarinnar. Samsett mynd

Fagna á Húrra í dag

FO vettlingarnir eru hannaðir af Védísi Jónsdóttur, prjónahönnuði, og framleiddir af Varma. Þeir kosta 4.900 krónur, eru úr 100% merínó ull og koma í tveimur stærðum (S/M og M/L). Hægt er að kaupa vettlingana á heimasíðu samtakanna, unwomen.is (https://gjafaverslun.unwomen.is/product/fo-vettlingarnir).

Vettlingunum og herferðinni verður fagnað á skemmtistaðnum Húrra við Tryggvagötu 22 á milli klukkan 17:00- 19:00 í dag, föstudaginn 2. september. Þar verður hægt að næla sér í vettlinga og styrkja um leið afar mikilvægt og aðkallandi málefni. Fram koma DJ Dóra Júlía, Una Torfadóttir, Systur og dragdrottning Íslands, Lady Zadude. Siggi Gunnars verður svo veislustjóri viðburðarins. Aðgangur er ókeypis og öll velkomin.

Samsett mynd
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert