Controlant opnar í Póllandi

Gísli Herjólfsson, forstjóri Controlant, og Jakub Mazur, varaborgarstjóri Wroclaw, klippa …
Gísli Herjólfsson, forstjóri Controlant, og Jakub Mazur, varaborgarstjóri Wroclaw, klippa bláa borðann og opna starfsstöðina formlega. Ljósmynd/Aðsend

Íslenska hátæknifyrirtækið Controlant hefur opnað starfsstöð í Wroclaw í Póllandi. „Starfsstöðin mun styðja við hraðan vöxt fyrirtækisins og mæta vaxandi spurn eftir lausnum Controlant frá nýjum og núverandi viðskiptavinum  úr lyfja-, matvæla- og flutningsiðnaði á heimsvísu,“ segir í fréttatilkynningu frá fyrirtækinu.

Segir þar enn fremur að ný starfsstöð Controlant verði staðsett í hjarta gamla miðbæjarins í Wroclaw og þar starfi rúmlega 20 sérfræðingar á sviði þjónustu, flutninga, fjármála og mannauðs en Controlant er leiðandi fyrirtæki í þróun á vöktunarlausnum á sviði aðfangakeðju. Eftir því sem fram kemur í tilkynningunni stuðla lausnir Controlant að öruggum, skilvirkum og rekjanlegum flutningi viðkvæmra lyfja og matvæla með sjálfbærni og lágmörkun sóunar að leiðarljósi.

Stjórnendur borgarinnar fagna

„Við erum ört vaxandi fyrirtæki með metnaðarfull markmið og stefnu til framtíðar. Við  þurfum að vera reiðubúin í þá spennandi vegferð sem fram undan er og með starfsemi okkar í Wroclaw erum við í sterkri stöðu til að styrkja núverandi viðskiptatengsl okkar og skapa ný,“ er haft eftir Gísla Herjólfssyni, forstjóra og einum stofnenda Controlant, í tilkynningunni.

Gísli Herjólfsson ávarpar starfsfólk og gesti við opnunina í Póllandi.
Gísli Herjólfsson ávarpar starfsfólk og gesti við opnunina í Póllandi. Ljósmynd/Aðsend

Um þessar mundir starfa 370 manns hjá fyrirtækinu af 50 mismunandi þjóðernum. Auk höfuðstöðva sinna á Íslandi og nýju skrifstofunnar í Póllandi rekur Controlant einnig starfsstöðvar í Bandaríkjunum og Hollandi en varaborgarstjóri Wroclaw fagnar komu fyrirtækisins mjög.

„Ákvörðunin sem Controlant tók er dýrmætt skref fyrir borgina og fyrirtækið sjálft. Opnun skrifstofu í Wroclaw mun gera fyrirtækinu kleift að ráða hæfa og vel menntaða einstaklinga og á sama tíma njóta nálægðar við evrópska viðskiptavini,“ er haft eftir Jakub Mazur varaborgarstjóra sem um leið kveðst hlakka til að fylgjast með frekari vexti fyrirtækisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert