„Um nokkuð langt skeið hafa sérfræðilæknar á stofum tekið að sér tryggingamiðlun fyrir sína skjólstæðinga,“ segir Ragnar Freyr Ingvarsson, formaður Læknafélags Reykjavíkur, í samtali við Morgunblaðið.
Í fyrradag sendi fundur félagsins frá sér ályktun þar sem fram kom að hluti sjálfstætt starfandi lækna og læknastöðva hefði þann dag hætt að senda frá sér rafræna reikninga til Sjúkratrygginga Íslands. Sjálfstætt starfandi læknar hafi verið samningslausir frá árinu 2018. Félagið harmar það áhugaleysi sem stjórnvöld hafi sýnt sjúkratryggðum þegnum landsins.
„Þegar þú kemur til læknis á stofu gerir hann reikning þegar hann er búinn að veita þér þjónustu,“ segir Ragnar af rafrænu reikningunum. „Hann sendir þennan reikning svo til Sjúkratrygginga en á reikningnum sundurliðast hluti sjúklings og hluti Sjúkratrygginga,“ útskýrir Ragnar.
Sjúklingur greiði sinn hluta á staðnum en það sem eftir stendur fer til Sjúkratrygginga sem svo geri upp við viðkomandi lækni. „Þegar læknar hætta að senda reikning þýðir það að sjúklingurinn gerir upp við sinn lækni að fullu, sendir svo reikninginn upp í Sjúkratryggingar og fær endurgreitt lögum samkvæmt,“ heldur Ragnar áfram.
Umfjöllunina í heild sinni má nálgast í Morgunblaðinu í dag.