Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út um sexleytið í dag, þar sem eldur hafði komið upp í ruslatunnum í grennd við Grandaborg.
Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu eyðilögðust tunnurnar sem og geymsla sem þær voru í, en eldurinn hafði læst sig í þær. Eldurinn þótti minniháttar og gekk slökkvistarf venju samkvæmt vel, að sögn slökkviliðsins.
Engar upplýsingar var að fá um upptök eldsins, en íbúi í Vesturbæ skrifaði um málið á Facebook-hópinn Vesturbærinn að hún hefði verið á ferð ásamt fjölskyldu sinni hjá Grandaborg skömmu áður en eldurinn kom upp, og hefðu þau séð þrjá drengi, líklega á miðstigi grunnskóla vera að brasa eitthvað í ruslaskýlinu. Skömmu síðar hefði eldurinn blossað upp.
„Það er mikilvægt að foreldrar brýni fyrir börnum sínum að þetta er ekki sniðugur leikur, heldur getur svona endað virkilega illa,“ segir íbúinn í færslu sinni.