Möguleiki er á að landsmenn fái að njóta norðurljósa aftur í kvöld, en öflug norðurljós mátti sjá víðsvegar um landið í gærkvöldi.
„Í kvöld er þokkaleg spá. Það gæti alveg komið eitthvað smá en eins og staðan er núna þá er Ísland ekki inn í svæðinu þar sem það eiga að vera norðurljós en það gæti alveg breyst,“ segir Sigríður Kristjánsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands og formaður stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, í samtali við mbl.is.
„Svo gæti komið næstu daga af því að það er opin kórónugeil á sólinni. Svona kórónugeil spýtur út fullt af ögnum sem koma svo til jarðar og þá fáum við norðurljós,“ bætir Sigríður við.
Að sögn Sigríðar eru oft flott norðurljós í kringum jafndægur sem eru í lok september. Því sé ekki óvenjulegt að svona öflug norðurljós hafi skinið í gær.
Norðurljósaspá Veðurstofunnar má sjá hér.