Hann lærði til loftskeytamanns og fór barnungur á sjó. „Raunar svo ungur að ég mátti ekki taka toll með mér þegar við komum í land,“ rifjar Valur R. Jóhannsson upp hlæjandi.
Valur dúxaði í loftskeytaskólanum og verðlaunin voru að fara út með síðutogaranum Ingólfi Arnarsyni til að fylgjast með störfum loftskeytamannsins um borð. Í miðjum túr skipaðist hins vegar veður í lofti. Loftskeytamaðurinn var kallaður í land, settur í gúmbát úti á rúmsjó, og Vali sagt að taka við. „Ég fékk ekkert val; var bara orðinn loftskeytamaður á Ingólfi í miðjum túr,“ segir hann brosandi.
– Hvert fór hinn?
„Hann var sendur utan til að fylgjast með smíði nýs togara með sama nafni. Sjálfur lenti ég í þessu sama seinna; var sendur til Spánar að fylgjast með smíði togarans Snorra Sturlusonar. Það átti ekki að taka svo langan tíma, var mér tjáð, en ég komst ekki heim fyrr en eftir sex mánuði. Spánverjarnir voru ekkert að stressa sig á smíðinni, sögðu bara „mañana“, gerum þetta á morgun!“ segir Valur sposkur en hlutverk hans var að fylgjast með uppsetningu tækjabúnaðar í brúnni.
Rætt er við Val R. Jóhannsson í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.