Óvenju margar tilkynningar um ofurölvi fólk og vandræði vegna ölvunar, bárust lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi og nótt. Flest málin reyndust þó minniháttar, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.
Laust fyrir klukkan eitt í nótt barst tilkynning um mann sem hafði ráðist á dyraverði í miðbænum. Þegar lögreglu bar að garði streittist maðurinn á móti handtöku og þurfti að vista hann í fangaklefa sökum ástands. Málið er í rannsókn en hann er grunaður um að hafa tekið dyravörðinn hálstaki.
Um klukkan þrjú barst tilkynning um ofurölvi manneskju í miðbænum. Eftir ítrekaðar tilraunir til að koma viðkomandi heim til sín var tekin ákvörðun að leyfa viðkomandi að gista í fangaklefa þangað til hægt væri að koma honum heim.
Klukkan þrjú var síðan einstaklingur handtekinn, grunaður um hótanir en hann hafði ítrekað komið við sögu lögreglu um kvöldið. Hann var vistaður í fangageymslu í þágu rannsóknar.
Þá þurfti lögregla að hafa afskipti af þó nokkrum ökumönnum sem grunaðir eru um akstur undir áhrifum áfengis eða fíkniefna.