Þessa dagana eru kjöraðstæður til þess að horfa til himins segir Sævar Helgi Bragason, sem einnig er þekktur sem Stjörnu-Sævar, í samtali við mbl.is.
Það fór eflaust ekki framhjá mörgum í gærkvöldi sem litu til himins, að mikil og björt norðurljós voru þá á himninum. En hverju sætti? „Það voru rosalega góðar aðstæður til að sjá þau í nótt, þar sem það var bæði dimmt og heiðskýrt,“ segir Sævar Helgi. „Norðurljósin eru allt árið, en við sjáum þau ekkert á sumrin, því þá er of bjart hjá okkur.“
Sævar segir að fyrir nokkrum dögum hafi komið upp op í kórónuhjúp sólarinnar, svo kölluð kórónugeil. „Út úr þessu opi streymdi hraðfleygur sólvindur beint á jörðina, og þegar hann skellir á jörðinni, þá fáum við svona norðurljósastorm eins og við sáum í gær og ættum að sjá í kvöld,“ segir Sævar, en hann segir að við ættum að geta séð norðurljósin um leið og það verður nægilega dimmt, eða svona um tíu-ellefuleytið.
„Þegar svona kórónugeil snýr að okkur þá standa norðurljósin yfir í svona þrjá til fimm daga, það fer eftir því hversu stórar kórónugeilarnar eru, en svo fjara áhrifin út,“ segir Sævar Helgi, en það helgast af því að sólin snýst og geilin mun þá snúast frá okkur.
Sævar segir að hægt sé að líkja þessu við að standa í garði, þar sem garðúðari sem snýst er að vökva. „Þegar við erum í bununni frá sólinni þá sjáum við norðurljósin, og það vill þannig til að við erum akkúrat í „bununni“ núna og allt er á fullu.“
Sævar Helgi segir að þessar geilar geti enst vikum og mánuðum saman, en að ef hún lokist ekki, þá megi eiga von á því að hún muni aftur snúa að okkur eftir um það bil 27 daga, þegar sólin hefur lokið einum snúningi. „Í lok september og byrjun október má þá eiga aftur von á norðurljósum, nema geilin hafi lokast, en svo eru nokkrar svona geilar opnar í einu, þannig að við fáum reglulega svona norðurljósaskot,“ segir Sævar Helgi.
Hann bætir við að nú í september og október, og svo aftur í mars-apríl sé besti tíminn til þess að sjá norðurljósin. Hann segir að ástæðan sé ekki fyllilega ljós, en að mögulega sé það vegna þess að þá sé halli jarðarinnar gagnvart sólinni heppilegri til þess að hleypa ögnunum sem valda norðurljósunum í gegn.
Það eru þó ekki bara norðurljósin sem eru sýnileg á himninum í kvöld, heldur má einnig eiga von á því að reka augun í þrjár af reikistjörnunum í sólkerfinu okkar, Mars, Júpíter og Satúrnus.
Sævar setti fyrr í dag færslu á Facebook-síðu sína, þar sem hann hafði fengið margar fyrirspurnir, ekki bara um norðurljósin, heldur einnig af stjörnum sem væru óvenjuskærar á himninum.
„Ég fæ mikið af spurningum núna frá fólki sem er að furða sig á þessari skæru stjörnu sem það sér í austri þegar sólin er að setjast, en það er semsagt Júpíter sem skín svona skært, en hann sést svona vel því hann er risastór og er á góðum stað,“ segir Sævar Helgi og bætir við að Júpíter verði á áberandi stað fram í vetur og því um að gera að reyna að gjóa augunum að honum.
„En svo er í suðri, þá má sjá lágt á himni gulleita stjörnu sem er aðeins bjartari en stjörnunar í kring og tindrar ekki. Það er Satúrnus, þannig að ef fólk á litla stjörnusjónauka, ætti það endilega að beina honum að Satúrnusi og sjá hringana í öllu sínu veldi,“ segir Sævar Helgi.
Hann bætir við að um miðnættið megi sjá á þessum árstíma Mars á lofti, sem er áberandi rauðgulur á litinn. „Þannig að við erum með þrjár mjög áberandi reikistjörnur á himni á þessum árstíma sem fólk ætti að gefa gaum, því þær eru mjög fallegar og vekja jafnan athygli.“
-En ætlar Sævar sjálfur að horfa til himins í kvöld? „Ég er alltaf með augun á himninum, ég reyni alltaf að horfa upp þegar sést í bláan himinn, þannig að það er ekki spurning að ég mun kíkja til himins í kvöld eins og öll kvöld,“ segir Sævar.